131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.

755. mál
[10:51]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Já, þetta er tímabær umræða og þarf auðvitað að fara fram á öðrum vettvangi og fara dýpra í hana. Ég hefði talið fulla ástæðu til að fara betur ofan í saumana á starfi úrskurðarnefndarinnar og þeim aðstæðum sem hún starfar við, í nýlokinni endurskoðun umhverfisnefndar á lögunum um mat á umhverfisáhrifum. Þar vorum við einmitt að fjalla um tiltekna þætti í starfi úrskurðarnefndarinnar. Þessar upplýsingar komu fram hjá fulltrúum nefndarinnar sem heimsóttu umhverfisnefnd Alþingis svo að þær ættu ekki að koma okkur á óvart.

Ég held að það hljóti að verða að skoða hvort við eigum ekki að setja í lög ákveðinn frest á þá aðila sem eiga að skila gögnum til nefndarinnar. Ég hefði talið betra að við hefðum gaumgæft það atriði enn betur í nýafstöðnum störfum umhverfisnefndar.