131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Tilmæli fastanefndar Bernarsáttmálans.

800. mál
[10:57]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Bernarsamningurinn, um verndun villtra dýra, plantna og búsvæða í Evrópu, er einn af þeim alþjóðasamningum sem skuldbindur íslensk stjórnvöld varðandi tiltekin málefni á sviði náttúruverndar. Það fer ekki hjá því að við, sem látum umhverfismál sérstaklega til okkar taka, veltum stundum fyrir okkur hvers virði það sé fyrir náttúruvernd á Íslandi að vera aðili að slíkum samningum. Í gegnum skrifstofu samningsins fá íslensk stjórnvöld ýmis fyrirmæli og á fundum fastanefndar eru gerðar ýmsar ályktanir sem ættu að skila sér hingað til lands, bæði í formi beinna aðgerða en ekki síður í fréttaflutningi og almennri umfjöllun í fjölmiðlum.

Mér hefur oft fundist skorta á að yfirvöld umhverfismála láti sér nægilega annt um skyldur sínar í þessum efnum. Náttúrufræðistofnun Íslands sér um framkvæmd Bernarsamningsins hér á landi. Raunar er forstöðumaður hennar nýkjörinn varaformaður fastanefndar samningsins og er rétt að óska honum og hæstv. umhverfisráðherra til hamingju með það. En eftir nokkurra ára setu í umhverfisnefnd Alþingis veit ég að stofnunin hefur þráfaldlega óskað eftir auknum fjármunum til að sinna alþjóðastarfi betur en hefur ævinlega talað fyrir daufum eyrum. Þetta tek ég fram til að það liggi ljóst fyrir að gagnrýni mín hvað þetta varðar er ekki beint að Náttúrufræðistofnun Íslands heldur þeim stjórnvöldum sem bera ábyrgð á að henni sé gert kleift að sinna skyldum sínum.

Fastanefnd Bernarsamningsins hélt árlegan fund sinn, frú forseti, í Strassborg í Frakklandi 29. nóvember til 3. desember síðastliðinn. Íslendingar áttu þar fulltrúa í hópi fulltrúa hinna 45 aðildarríkjanna. Fyrir fundinum lá kæra nokkurra íslenskra og erlendra fuglaverndarfélaga á hendur íslenska ríkinu, sem lögð var fram og rædd á fundi nefndarinnar fyrir ári, þ.e. í desember 2003. Í kærunni var sett fram ásökun um að Ísland væri að brjóta nokkur ákvæði Bernarsamningsins með því að heimila virkjanaframkvæmdir við Kárahnjúka og Norðlingaöldu, sem stofnuðu fuglategundum í hættu sem eru verndaðar af samningnum. Á fundinum mun hafa verið lögð fram skýrsla frá sérfræðingi á vegum skrifstofu samningsins um málið sem skapaði þó nokkra umræðu og í kjölfar hennar ályktaði fundurinn að engin fuglategund vernduð af samningnum mundi verða fyrir alvarlegum áhrifum frá virkjanaframkvæmdunum við Kárahnjúka eða Norðlingaölduveitu, svo notað sé orðalag úr fréttatilkynningu umhverfisráðuneytisins frá 6. desember síðastliðnum.

Frú forseti. Mínar heimildir herma — mínar heimildir koma frá Fuglaverndarfélagi Íslands sem líka áttu fulltrúa í Strassborg í desember — að fundurinn hafi í raun samþykkt tilmæli til íslenskra stjórnvalda á grundvelli umfjöllunar um kæruna. Nú hef ég lagt fyrirspurn fyrir hæstv. umhverfisráðherra um hver þessi tilmæli fastanefndar Bernarsáttmálans til íslensku ríkisstjórnarinnar hafi verið og hvort brugðist hafi verið við þeim og ef ekki, hvernig ríkisstjórnin hyggist þá gera það.