131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Tilmæli fastanefndar Bernarsáttmálans.

800. mál
[11:00]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Tilmæli fastanefndar Bernarsamningsins eru tilgreind í sex liðum. Tveir þeirra eru almenns eðlis, þrír þeirra varða framkvæmdirnar við Kárahnjúkavirkjun og einn liður varðar hugmyndir um Norðlingaölduveitu. Því er beint til ríkisstjórnarinnar að við mat á áhrifum framkvæmda í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins, 2001/42/EC verði hugað að neikvæðum samlegðaráhrifum framkvæmda við nýtingu vatnsorku og jarðhita. Einnig er bent á að hugað verði að því að sett verði upp sams konar eftirlits- og vöktunarnefnd og sett var á laggirnar vegna Kárahnjúkavirkjunar við viðeigandi framtíðarverkefni til að fjalla um neikvæð áhrif í samræmi við skilyrði um slíkar framkvæmdir í framtíðinni. Þá er lagt til að friðun verði tryggð á mikilvægum fuglasvæðum á Eyjabökkum og Úthéraði, tryggt að heiðagæs fái frið á fellitíma á Eyjabakkasvæðinu og hugað að endurreisn votlendis frá Úthéraði. Loks er mælt með því að friðun Þjórsárvera tryggi að svæðið haldi vistfræðilegum eiginleikum vistkerfisins og komið verði í veg fyrir neikvæð áhrif vegna orkunýtingar.

Tvö fyrstu tilmæli Bernarsamningsins eru almenns eðlis eins og fyrr segir og varða ákvarðanir um framkvæmdir í framtíðinni og krefjast því ekki aðgerða fyrr en á síðari stigum. Ábendingar um aðgerðir vegna Kárahnjúkavirkjunar, þ.e. friðun á mikilvægum fuglasvæðum á Eyjabökkum og Úthéraði ásamt endurreisn votlendis eru til skoðunar í umhverfisráðuneytinu. Það hefur hins vegar ekki verið tekin ákvörðun um hvernig brugðist verði við þessum ábendingum. Sama má segja um ábendinguna um Þjórsárver nema þar er friðun hluta svæðisins þegar tryggð og markmið friðunarinnar er m.a. að halda vistkerfi svæðisins óbreyttu.