131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Skuldbindingar vegna einkaframkvæmda í ársreikningum sveitarfélaga.

730. mál
[11:10]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Gunnar Birgisson beindi til mín fyrirspurn um eignar- og rekstrarleigusamninga vegna einkaframkvæmda og meðhöndlun þeirra í ársreikningum sveitarfélaga.

Í sveitarstjórnarlögum er skýrt kveðið á um að reikningsskil sveitarfélags skuli gefa glögga mynd af rekstri og efnahag sveitarfélagsins og að um þau skuli gilda ákvæði laga um bókhald og ársreikninga og góða reikningsskilavenju. Sveitarfélögunum ber því að meðhöndla slíka samninga á þeim grundvelli. Í því felst m.a. að sveitarfélaginu ber að tilgreina sérstaklega þær skuldbindingar sem það hefur gengist undir vegna einkaframkvæmda hvort sem þar er um að ræða eignarleigusamning eða rekstrarleigusamning.

Ef um er að ræða eignarleigusamning ber að eignfæra viðkomandi eign og færa skuldbindingu vegna umsaminna leigugreiðslna í efnahagsreikning. Ef hins vegar er um að ræða rekstrarleigusamning eða aðra leigusamninga sem nema verulegum fjárhæðum skal greina frá skuldbindingunni í skýringum með ársreikningi.

Hvort samningur um einkaframkvæmd teljist vera eignar- eða rekstrarleigusamningur ræðst af ákvæðum viðkomandi samnings.

Þess má geta, hæstv. forseti, að í alþjóðlegum reikningsskilastöðlum er leigusamningum skipt í eignarleigusamninga og rekstrarleigusamninga og ræðst flokkunin af tilteknum ákvæðum samninganna. Samkvæmt alþjóðlega reikningsskilaráðinu er að jafnaði litið á samning sem eignarleigusamning ef einu eða fleirum af eftirfarandi skilyrðum er fullnægt.

1. Ef ákvæði í samningi kveður sérstaklega á um að eignarréttur flytjist til leigutaka í lok leigutímans.

2. Ef leigutaki á í lok leigutímans rétt á að kaupa hina leigðu fjármuni fyrir fjárhæð sem kenna má við vildarkjör.

3. Ef leigutími svarar til meginhluta af áætluðum endingartíma hinna leigðu fjármuna.

4. Ef núvirði lágmarksleigugreiðslu svarar svo gott sem til markaðsvirðis hinna leigðu fjármuna.

5. Ef hin leigða eign er sérhæfð þannig að aðeins leigutakinn getur notað hana án meiri háttar breytinga.

Sé engu ofangreindra skilyrða fullnægt er að jafnaði litið svo á að leigusamningurinn sé svonefndur rekstrarleigusamningur og ber þá að fara með hann samkvæmt því í bókhaldi.

Ég vil geta þess, hæstv. forseti, að reikningsskila- og upplýsinganefnd sem starfar á vegum félagsmálaráðuneytisins á grundvelli reglugerðar um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga nr. 944/2000 hefur nýlega lokið, raunar í síðustu viku, við gerð auglýsingar um meðferð leigusamninga í bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga. Ég hef þegar undirritað þá auglýsingu og sent hana til birtingar í Stjórnartíðindum. Þeim reglum sem fram koma í auglýsingunni er ætlað að tryggja enn frekar en verið hefur samræmda meðhöndlun eignar- og rekstrarleigusamninga í ársreikningum allra sveitarfélaga og ég tel að með henni sé m.a. komið til móts við þau sjónarmið sem hv. þingmaður setti fram í fyrirspurn sinni.