131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Fjárhagsstaða meðlagsgreiðenda.

759. mál
[11:20]

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég flyt ásamt hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur fyrirspurn til félagsmálaráðherra er lýtur að fjárhagsstöðu meðlagsgreiðenda. Það er leitt að þurfa að greina frá því að fyrirspurnin sætir í sjálfu sér ekki tíðindum. Með reglubundnum hætti hafa verið fluttar fyrirspurnir um fjárhagsstöðu þessa hóps og skil, eða öllu heldur vanskil, hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga á meðlagsgreiðslum og ítrekað komið fram að staða þessa hóps er að mörgu leyti erfið og að vanskil á þessum greiðslum hafa verið allt of mikil til að unnt sé við það að búa til langframa.

Þá hefur það viljað brenna við, og það þekki ég af reynslu minni sem formaður félagsmálaráðs Reykjavíkur, að þeir sem lenda í miklum skuldum vegna meðlaga lenda í ákveðnum vítahring. Þeir geta ekki unnið vegna þess að það er tekið af þeim upp í skuldirnar, þeir leiðast út í svarta vinnu og verða oft á mörkum samfélagsins. Það þyrfti að vinna sérstakar áætlanir til að brjóta upp þann vítahring. Ég spyr þess vegna hæstv. félagsmálaráðherra hvernig staða þessara meðlagsgreiðenda er nú, hver vanskilin eru almennt og hvort hann telji ástæðu til að grípa til sérstakra aðgerða því að menn hafa aftur og aftur skipað sérstakar nefndir til að yfirfara þessi mál.

Meðlagsgreiðslan er auðvitað ekki of há fyrir þann sem fær hana og vissulega endurspeglar hún sennilega ekki að fullu hálfan kostnað af því að framfleyta einu barni. Það virðist engu að síður vera svo að hún sé of þungur baggi of mörgum til að hægt sé að horfa aðgerðalaus á eða láta málefni þessa hóps velkjast úr einni nefndinni í aðra. Þess vegna er full ástæða til — og þess vegna spyrjum við hv. þingmenn hæstv. félagsmálaráðherra hvort hann telji tilefni til — að grípa til sérstakra aðgerða.