131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Fjárhagsstaða meðlagsgreiðenda.

759. mál
[11:31]

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Hvaða vitleysa er þetta eiginlega? Hér upplýsir hæstv. félagsmálaráðherra að við eigum bókfærðar inneignir hjá ógjaldfærum mönnum um land allt upp á 10,3 milljarða kr. Við færum til skuldar, hjá ákaflega illa stöddu fólki félagslega, 10,3 milljarða sem allir í þessum sal vita að fást aldrei borgaðir nema að óverulegu leyti. Í níu ár hefur ekki verið hafst að í þessu, síðan 1996 að ný úrræði voru innleidd. Þau hafa ekki skilað meiru en svo að það er algengara en ekki að fólk sé í vanskilum. Þriðji hver maður sem greiða á meðlag í landinu er í vanskilum án þess að vera með neina samninga um þau vanskil og vanskilin velta þar með bara upp á sig.

Hæstv. félagsmálaráðherra verður að taka þetta málefni til alvarlegrar skoðunar. Ég undrast að hann lýsi því yfir að hann ætli að vera aðgerðalaus gagnvart þessum hópi. Ég man ekki betur en að fyrr á þessu kjörtímabili hafi hann lýst því yfir að hann hefði skipað sérstaka nefnd til að skoða stöðu þessa hóps. Ég átti von á því að einhverjar fréttir væru úr þeirri nefnd en kannski vandinn hafi bara sofnað þar.

Við getum ekki verið með opinbert kerfi þar sem reglan er sú að borgarinn greiði ekki það sem ætlast er til. Þá er eitthvað að kerfinu. Ef 53,4% eru í vanskilum þá er eitthvað að kerfinu og við verðum að grípa til aðgerða. Það fólk sem við veltum svona vanda upp á og ímynduðum inneignum, eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti á áðan og hv. þingmenn Siv Friðleifsdóttir og Katrín Júlíusdóttir, lendir í vítahring og félagslegum vanda sem erfitt getur verið að slíta sig út úr.