131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Stuðningur við búvöruframleiðslu.

733. mál
[11:45]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef tekið eftir því að hæstv. ráðherra lét það koma fram í fjölmiðlum um þetta mál, Mjólku, þegar það kom upp í vetur að hann teldi að þetta bú og að mínu viti þá sambærileg framleiðsla sem hugsanlega kæmi upp önnur ætti að standa alfarið utan við stuðningskerfi landbúnaðarins. Ef stuðningskerfi landbúnaðarins verður breytt þá hlýtur það að gerast með almennum hætti þannig að stuðningur t.d. á hvern grip, eins og kominn er núna vísir að inn í þann samning sem liggur fyrir, er stuðningur sem bú eins og þetta ætti þá fullkominn rétt á. Ég óska eftir að fá svör við því frá hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki farið yfir þessi mál, velt þeim fyrir sér betur og hvort hann sjái ekki að almennur stuðningur við landbúnað hljóti að vera það sem menn þurfa að glíma við í framtíðinni.