131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Merkingar á þorski, ufsa, skarkola og grálúðu.

753. mál
[12:02]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég tek því mjög vel að ræða skýrslu Hafrannsóknastofnunar næsta haust þegar þing kemur saman, mér finnst alveg sjálfsagt að ræða þetta opið og af hreinskilni. En til þess hins vegar að gera það verða menn að gera sér grein fyrir því hver þróunin hefur verið og ég var að vonast til að hv. þingmaður mundi gera okkur grein fyrir því að hann byggi yfir þeirri þekkingu að vita hver þróun þorskstofnsins hefur verið á þessu tímabili.

Staðreyndin er sú að á síðasta ári mældist veiðistofninn eða viðmiðunarstofninn — hann hefur gengið undir þessum tveimur nöfnum undanfarin rúmlega fjögur ár — ríflega 850 þúsund tonn. Þegar kvótakerfið var tekið upp árið 1983 var hann ríflega 800 þúsund tonn og 1973, tíu árum áður en kvótakerfið var tekið upp var hann líka ríflega 800 þúsund tonn. Hins vegar var hann 1963, og nú fer ég með þá tölu eftir minni, á milli 12 og 13 hundruð þúsund tonn, ef ég man rétt, en tæplega tíu árum fyrr var hann tæplega 2,3 milljónir tonna. Vandinn sem við eigum við að glíma, vandinn í veiðinni birtist í því að stofninn er veiddur niður á 20 ára tímabili á 6. og 7. áratugnum, ekki síðar. Vandinn sem síðan birtist í því að veiðin er minni en hún var kemur til af því að nýliðunin eftir 1985 er miklu minni en hún var á tímabilunum þar á undan og í þessu birtist vandinn. Hann tengist ekki þeim kerfum sem við höfum verið með því að kerfin snúast eingöngu um að gera okkur kleift að fara eftir ráðleggingum vísindamanna og veiða þann hluta stofnsins sem við teljum að sé skynsamlegt að veiða.