131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Gegnumlýsingartæki fyrir tollgæsluna.

798. mál
[12:04]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Frú forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurnir til hæstv. fjármálaráðherra sem yfirmanns tollgæslunnar á Íslandi varðandi gáma og gegnumlýsingartæki fyrir tollgæsluna. Tilefnið er að menn velta mjög vöngum yfir því eftir hvaða leiðum fíkniefni koma til landsins sem virðist vera svo auðvelt fyrir fólk að ná í og hvernig menn bregðast þá við.

Tildrög þessarar spurningar eru þau að á 128. löggjafarþingi 2002–2003 lagði ég fram fyrirspurn fyrir hæstv. fjármálaráðherra í svipuðum dúr, þ.e. hversu margir tollverðir sinntu beint innflutningseftirliti með gámum og í ljós kom að árið 2001 voru þetta 85.300 gámaeiningar og um 1% þeirra var skoðað eða um 850 gámar, þ.e. um 1% af innflutningnum þá, sem ætla má af svarinu.

Þá kom einnig í ljós í svari frá hæstv. fjármálaráðherra að Tollgæslan í Reykjavík hefur til umráða gegnumlýsingarbifreið sem er notuð við skoðun á innihaldi í gámum. Nú hefur tækninni fleygt mjög fram og eru til svona tæki sem tengjast þá sérstökum bifreiðum en einnig er til svokallaður laus búnaður sem hægt er að staðsetja og flytja á milli staða ef mönnum sýnist svo.

Nú veit ég, virðulegi forseti, að á Seyðisfirði er t.d. mjög erfitt um vik í sambandi við skoðun á bílum. Svo illa tókst til varðandi skoðunaraðstöðu, t.d. á húsbílum, að bygging þess húss sem átti að skoða slíka bíla mistókst. Dyr og annar búnaður er ekki nógu hár þannig að þar komast bara inn fólksbílar. Af þeim mikla hraða sem er t.d. varðandi farþega og bifreiðar sem þar koma í land þá veit ég að menn ná því ekki að skoða eins og kannski þeir vildu gjarnan gera.

Nú hefur hins vegar komið í ljós að þessi tæki eru bæði orðin ódýrari og meðfærilegri og þess vegna spyr ég virðulegan fjármálaráðherra: Er fyrirhugað að kaupa eða leigja tæki fyrir tollgæsluna til að gegnumlýsa gáma, farartæki, pallavöru o.fl. til að herða eftirlit með innflutningi fíkniefna?