131. löggjafarþing — 130. fundur,  10. maí 2005.

Almennar stjórnmálaumræður.

[21:17]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Það hefur verið fróðlegt að sitja í þinginu í vetur og fylgjast með þeirri ríkisstjórn sem nú situr gefast smátt og smátt upp á að fylgja málum sínum eftir og einnig hve sannfæring þeirra sem málin hafa flutt er í mörgum tilfellum lítil fyrir nauðsyn þess að fá þau samþykkt. Það hefur einnig verið fróðlegt að kynnast því hversu mikið vald ráðherrar flokkanna hafa yfir ákvörðunum og atkvæðum flokkssystkina sinna í þingsalnum og í nefndum þingsins. Ætli þetta sé ekki aflið sem Arnbjörg Sveinsdóttir var að vitna til í ræðu sinni, að ráðherrar þyrftu að ráða? Ég hef vanist því að dæma menn af verkum sínum en ekki því sem þeir segjast hafa gert eða ætli að gera og staðreyndir um verk ríkisstjórnarinnar á þessu þingi tala sínu máli.

Það er óneitanlega mikil ferð á íslenska hagkerfinu nú um stundir og þykir reyndar mörgum nóg um þensluna sem ríkir og þær hættur sem henni fylgja. Mikil tímabundin þensla hefur í för með sér miklar ríkistekjur og gefur því slíkt ástand þeim sem með völdin fara kost á að gera betur við þá sem mest þurfa á því að halda, kjósi þeir að gera svo.

Við höfum heyrt stjórnarliða hér í þingsal guma af stöðugleika, ábyrgri efnahagsstjórn, styrkri stjórn ríkisfjármála og helst hefur maður beðið eftir því að þeir fari að þakka sér sumarið sem nú er að koma enn á ný. Það blasir þó við öllum sem vilja sjá að skattheimta ríkisins hefur aldrei verið meiri en nú og ef við skoðum hvaða fjármunum fjármálaráðherrann hefur úr að spila og hver hefur verið þróun tekna ríkisins kemur ýmislegt athyglisvert í ljós.

Gert er ráð fyrir því í fjárlögum þessa árs að tekjur ríkissjóðs verði tæpir 306 milljarðar kr. Svona stórar tölur segja manni kannski ekki mikið og því betra að setja þær í samhengi, eins og t.d. hverjar verða tekjur ríkisins á hverjum degi. Fjárlögin gera ráð fyrir að 838 millj. kr. renni í ríkiskassann á hverjum einasta degi, jafnt virkum dögum sem um helgar. Allt bendir einnig til að tekjurnar verði líklega yfir þessari áætlun og geti orðið nálægt þúsund millj. kr. á dag.

Peningaflæði til ríkisins hefur því vaxið jafnt og þétt með aukinni þenslu og tvöfaldast að raungildi á tíu árum. Þetta aukna svigrúm þýðir á verðlagi þessa árs að ríkissjóður hefur úr að spila rétt um 400 millj. kr. meira á hverjum degi en hann hafði fyrir tíu árum. Við þessar aðstæður hefði maður haldið að ásókn ríkisins í fjármuni skattborgaranna mundi minnka og leitað yrði leiða til þess að létta álögum af þeim sem helst þyrftu á því að halda. Samfylkingin barðist fyrir því að þannig yrði að farið við síðustu skattbreytingar hér í þinginu en mátti ekki við þeim einbeitta vilja stjórnarinnar að byrja á því að lækka skatta ofan frá, mest á þá sem mestar tekjur höfðu. Þessi aðferð stjórnarherranna segir allt sem segja þarf um forgangsröðun ríkisstjórnar Halldórs Ásgrímssonar.

Góðir landsmenn. Ríkisstjórnin hefur í raun farið þá leið að blekkja almenning í skattalækkunum sínum. Hún hefur lækkað álagningarprósentur en svikist um að viðhalda skattleysismörkunum sem hafa á undanförnum árum alls ekki fylgt þróun verðlags, hvað þá þróun launa. Ríkisstjórnin hefur passað upp á að auka skattheimtuna með því að láta skattleysismörkin rýrna að raungildi. Ef skattfrelsi hefði fylgt launavísitölu hefðu skattleysismörkin átt að vera um 113 þús. kr. á síðasta ári á mánuði en voru rúmar 74 þús. kr.

Eru þetta ekki nægjanlega skýr skilaboð frá ríkisstjórninni til launþega, að þrátt fyrir mikið góðæri og mikinn vöxt tekna ríkisins er það ákvörðun ríkisstjórnarinnar að launþegar skuli byrja að borga tekjuskatt við 74 þús. kr. tekjur? Var Guðni Ágústsson að fagna þessu sérstaklega í ræðu sinni áðan? Mér heyrðist það.

Góðir landsmenn. Við búum við þreytta ríkisstjórn. Við búum við hugmyndasnauða ríkisstjórn sem er föst í hjólförum fortíðar og er búin að gefast upp á því að búa í haginn fyrir framtíðina. Er þetta góð ríkisstjórn? Er þetta ríkisstjórn launamanna? Ég læt ykkur, áhorfendur góðir, um að svara þeirri spurningu.

Samvinna og samhjálp allra er alltaf nauðsynleg, jafnt í góðæri sem á erfiðum tímum. Það á líka við núna. — Góðar stundir.