131. löggjafarþing — 130. fundur,  10. maí 2005.

Almennar stjórnmálaumræður.

[21:33]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur.

Samkvæmt ræðum hv. þingmanna stjórnarandstöðu í kvöld mætti ætla að allt væri að fara á versta veg í þjóðfélaginu og stjórnvöld væru með aðgerðum sínum að reyna allt til að drepa niður atvinnulíf og uppbyggingu í landinu. Þessi málflutningur kemur mér svo sem ekki mikið á óvart, en ég held að nauðsynlegt sé að rifja upp nokkrar staðreyndir. Þá kemur heldur betur annað í ljós.

Þegar við lítum á stærstu mál ríkisstjórnarinnar frá liðnum þingvetri sjáum við að markmið okkar voru eftirfarandi:

– Að auka kaupmátt.

– Að auka greiðslugetu heimilanna.

– Að gera nám enn arðbærara.

– Að hjálpa fólki, ekki síst ungu fólki, að eignast sitt eigið heimili.

Þetta finnast mér persónulega vera ansi góð markmið, en greinilega eru hv. þingmenn stjórnarandstöðu ekki sammála því frekar en öðrum góðum málum.

Stóru málin sem tengjast áðurnefndum markmiðum eru:

1. Lækkun skatta og hækkun barnabóta.

Sem dæmi má nefna að barnafjölskyldur með meðalráðstöfunartekjur eiga í vændum að hækka þær ráðstöfunartekjur um 180–490 þús. kr. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir fjölskyldurnar í landinu. Fyrir barnlausa einstaklinga er tekjuaukinn um 6,7% á ári, eða tæplega 170 þús. kr. árið 2007.

2. Lækkun endurgreiðsluhlutfalls námslána.

Við getum tekið sem dæmi útskrifaðan námsmann sem er með meðaltekjur upp á 250 þús. kr. á mánuði, þá lækkar endurgreiðslan um 30 þús. kr. á ári. Það munar um minna.

3. 90% húsnæðislán fyrir alla.

Þetta var stærsta kosningaloforð okkar framsóknarmanna. Það er mjög fróðlegt að rifja upp ummæli til að mynda bankanna í landinu þegar við framsóknarmenn komum fram með þetta kosningaloforð. Maður hélt gjörsamlega að bankakerfið mundi fara af hjörunum. Hvað gerðu þeir? Þeir sáu sem betur fer að sér og slógust í hópinn, tóku þátt í þessari baráttu og komu til móts við neytendur. Það hefur þó enginn gengið jafnlangt og Íbúðalánasjóður í þeirri baráttu, vegna þess að Íbúðalánasjóður lánar fólki hvar sem það býr á landinu. Það er mjög nauðsynlegt að standa vörð um Íbúðalánasjóðinn. Það munum við framsóknarmenn gera hér eftir sem hingað til.

Að sjálfsögðu hafa mjög mörg önnur góð mál verið afgreidd á hv. Alþingi í vetur og of skammur tími til að tína þau öll til. Ég verð þó aðeins að svara hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem fór hér mikinn í ræðu og sagði að ríkisstjórnin væri að herða helmingatökin á ýmsum stofnunum og minntist þar m.a. á Samkeppnisstofnun. Þvílíkur málflutningur. Ég veit ekki betur en við ætlum á morgun að samþykkja ný lög um samkeppnisyfirvöld þar sem til stendur að efla þau. Við ætlum að veita 60 milljónir aukalega til þess málaflokks og fjölga sérfræðingum um sjö. Þetta hefur greinilega farið fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði í ræðu sinni áðan að einsleit stóriðja færi ekki saman við fjölbreytni í atvinnulífi. Ég sem Austfirðingur vil benda hv. þingmanni á að kynna sér stöðu mála á Austurlandi í dag. Á Austurlandi eru nú í boði mjög fjölbreytt störf. Það er nefnilega þannig að til að skapa þessi fjölbreyttu, afleiddu störf verðum við að byggja góðan grunn. Það hafa stjórnvöld einmitt gert, þau hafa skapað aðstæður svo hægt sé að búa til slíkan grunn. Hverjar eru afleiðingarnar? Jú, öflugra velferðarkerfi og mikil uppbygging á öllum sviðum samfélagsins, svo ég nefni sem dæmi fyrir austan.

Ágætu áheyrendur. Framsóknarflokkurinn hefur í vetur forgangsraðað rétt. Allt það sem ég hef tínt til í þessari stuttu ræðu er árangur styrkrar efnahagsstjórnar. Þetta er mikill árangur sem stjórnarflokkarnir eru stoltir af. Hagvöxtur er mun meiri en annars staðar, atvinnuleysi miklu minna og kaupmáttur heimilanna hefur aukist um 55% frá árinu 1995. Mér finnst mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að til að mynda mín kynslóð ólst upp við efnahagslegan stöðugleika og góð lífskjör. Við þekkjum ekki afleiðingar verðbólgu á eigin skinni. Það ættu kannski sumir að vita að verðbólgan getur hleypt öllu úr böndunum ef ekki er vel haldið á málum.

Við verðum að vera meðvituð um að stöðugleiki í efnahagsmálum er ekkert náttúrulögmál. Það hefur þurft mikið til að ná þessum stöðugleika fram og það er að mínu mati helsti ávöxtur ríkisstjórnarinnar. Ég vil að íslenskt þjóðfélag haldi áfram á þeirri braut undir styrkri stjórn núverandi stjórnarflokka. — Ég þakka þeim sem hlýddu.