131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Athugasemd.

[10:31]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að vekja athygli þingheims á og mótmæla því harðlega að mál nr. 72, sem lýtur að því að afnema fyrningarfresti í kynferðisafbrotum gegn börnum, er ekki á dagskrá þingsins. Ljóst er að þetta er síðasti dagur þinghaldsins samkvæmt starfsáætlun og samkvæmt samkomulagi sem náðist milli stjórnmálaflokkanna og þingflokkanna sl. mánudag. Á þeim fundi hjá formönnum þingflokkanna var ákveðið að þetta mál yrði á dagskrá og málið var á dagskrá á mánudaginn. Nú rennur upp þessi síðasti dagur þinghalds og málið er ekki á dagskrá.

Það mál sem hér er um að ræða hefur fengið ítarlega meðferð og umfjöllun í samfélagi okkar. Allsherjarnefnd er búin að leggja mikla vinnu í málið. Við höfum kallað fyrir gesti og bæði meiri hluti og minni hluti búnir að gera ítarleg nefndarálit. Ég vil mótmæla þeim vinnubrögðum þingsins harðlega að setja þetta mál ekki á dagskrá eftir að allsherjarnefnd hefur afgreitt það frá sér. En það er með ólíkindum hvernig hæstv. forseti fer með vald sitt þegar kemur að því að raða málum á dagskrá eftir að þingnefndir hafa afgreitt mál sín úr nefndum. Þetta mál sofnaði í allsherjarnefnd í fyrra og nú á að svæfa það inni á kontór hjá hæstv. forseta.

Ég krefst þess að málið verði sett á dagskrá. Allsherjarnefnd hefur lokið störfum sínum. Þetta mál var á dagskrá sl. mánudag og ég krefst skýrra svara frá hæstv. forseta af hverju málið fæst ekki til umræðu meðal þingmanna. Verið er að koma í veg fyrir að þingmenn geti rætt þetta þjóðþrifamál sem 15 þúsund Íslendingar hafa skrifað áskorun um að eigi að samþykkja, mikið réttlætismál sem snertir börn þessa lands. Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi og ótækt að það séu flokkspólitískar ástæður fyrir því að svona mál fæst ekki rætt í þingsal. Ég mótmæli þessu harðlega og krefst skýringa frá hæstv. forseta af hverju málið er ekki á dagskrá.