131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Athugasemd.

[10:43]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að mótmæla þeim orðum forseta að það skipti máli eða hafi þýðingu í þessu máli að lögð hafi verið fram breytingartillaga við umrætt mál. Ég spyr: Hvaða nýmæli eru það að bannað sé að leggja fram breytingartillögu við mál og það valdi því að það sé þá tekið út af dagskrá? Um er að ræða breytingartillögu sem hv. þm. Jónína Bjartmarz lagði fram við málið, breytingartillögu sem hún gerði grein fyrir við afgreiðslu málsins úr nefndinni að hún mundi leggja fram og sem hún áskildi sér rétt til að gera í nefndaráliti sínu.

Virðulegi forseti. Þetta eru ekki röksemdir fyrir því að taka málið út af dagskrá. Hugmyndirnar sem birtust á þessum umræddu breytingartillögum lágu allar fyrir í hv. allsherjarnefnd og voru til umræðu þar. Það voru þær tillögur sem hv. þingmaður hafði margsinnis kynnt þar og rætt.

Síðan vil ég benda á, virðulegi forseti, í tilefni af orðum hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um að svo mikið liggi á að slíta þinginu. Það er 11. maí í dag, virðulegi forseti, og ef þingið fer heim í dag (EKG: ... samkvæmt starfsáætlun.) Starfsáætlun er eitthvað sem við ákveðum sjálf. Ef þingið fer heim í dag eru tæpir fimm mánuðir í að það komi saman aftur. Það yrði því engin goðgá, virðulegi forseti, þótt við mundum bæta eins og hálfum degi við til að ræða þau mál sem út af standa.