131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[11:04]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða litla tillögu sem tryggir að sá einstaklingur, forstjóri Samkeppnisstofnunar, sem upplýst hefur mesta samsæri gegn almenningi á síðari tímum hafi við þessar breytingar stöðu til að geta valið um að halda áfram starfi, að þessar stjórnsýslubreytingar sem hér standa til verði ekki þau skilaboð til forstöðumanna stjórnsýslustofnana í landinu að ef þeir taka á viðkvæmum málum verði þeir látnir fara.

Hér er verið að leggja til að farin verði sama leið og farin var árið 1993 þegar samkeppnislög voru sett, þ.e. að forstjórinn geti valið um það að halda áfram störfum. Ég sé það á töflunni að ekki einu sinni sjálft Alþingi ætlar að taka fram fyrir hendurnar á Framsóknarflokknum og bjarga þinginu frá þeirri skömm að forstjóra Samkeppnisstofnunar skuli vera sagt upp á þann hátt sem hér er ætlunin að gera í frumvarpinu.

Ég segi já, virðulegi forseti.