131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[11:22]

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Góðar og greiðar samgöngur eru forsenda samkeppnishæfrar búsetu, byggðar og atvinnulífs um land allt. Vegir og samgöngubætur eru gerðar fyrir þjóðina alla. Þjóðin öll á vegina, sama hvar hver einstaklingur býr.

Ríkisstjórnin og meiri hlutinn á Alþingi leggur til að hér verði samþykktur stórfelldur niðurskurður á þeirri samgönguáætlun sem hefur gilt, var samþykkt árið 2003 og var lagt upp með í kosningarnar sem eitt stærsta átak í samgöngumálum til þess tíma. Strax eftir kosningar er þetta átak svo skorið niður og nú stöndum við frammi fyrir niðurskurði á þriggja ára tímabili um 6–8 milljarða kr. á samgönguáætluninni í heild. Þetta eru hrein svik við þá kjósendur sem kusu þessa flokka í síðustu alþingiskosningum.

Hér er verið að leggja til að varið verði einu lægsta hlutfalli af vergum þjóðartekjum til samgöngumála um langt árabil. Auk þess eru framkvæmdir á vegum ríkisins sem nánast eingöngu hafa verið einskorðaðar við samgöngumál í lágmarki, það lægsta sem þekkst hefur um langt árabil. Þetta er verið að gera í góðærinu.

Ein rökin sem höfð eru fyrir þessum niðurskurði eru þau að það þurfi að varna þenslu vegna stóriðjuframkvæmdanna. Stóriðjuframkvæmdirnar eru dregnar fram sem rök fyrir því að vegaframkvæmdir eru skornar niður um allt land. Í þjóðarbúskap sem telur nálægt þúsund milljörðum króna er verið að tala um að tveggja milljarða kr. niðurskurður skipti máli. Hver trúir svona málflutningi? Hann er blekking.

Herra forseti. Þessi samgönguáætlun er unnin á ábyrgð meiri hluta ríkisstjórnarinnar. Þingmenn hafa mjög lítið komið að þessu, eingöngu að því sem lýtur að því að ræða um skiptingu fjár til einstakra kjördæma eftir að búið er að úthluta af hálfu meiri hlutans eða ráðherrans því fjármagni sem ætlað er að verja á hvert kjördæmi. Ég dreg í efa að sú skipan sé rétt að skipta landinu upp í svona kjördæmi, eins og ég sagði, (Gripið fram í: Landið eitt kjördæmi.) hvað varðar skiptingu vegafjár. Við eigum öll vegina, þjóðin. Þessi afgreiðsla er á ábyrgð (Forseti hringir.) meiri hlutans og ríkisstjórnarinnar, herra forseti.