131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[11:26]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér göngum við til atkvæðagreiðslu um samgönguáætlun fyrir árin 2005–2008. Framkvæmdir í samgöngumálum eru mjög fjárfrekar, framkvæmdir sem ná yfir langt tímabil, og þess vegna er óhjákvæmilegt að gera áætlanir, og í þessu tilviki fjögurra ára áætlun. Það liggur fyrir að framkvæmdir, rekstur og starfsemi á sviði flugmála samkvæmt áætluninni eru í góðu samræmi við þá miklu útrás og þau miklu umsvif sem eru í starfsemi flugsins. Hvað varðar framkvæmdir og starfsemi á sviði siglingamála liggur fyrir að það er góð sátt um þær allar og þá starfsemi sem er á vegum siglingastarfseminnar.

Hvað varðar vegaframkvæmdirnar eru miklar væntingar og miklar óskir um framkvæmdir í vegamálum um allt land. Í þessari áætlun gerum við ráð fyrir því að veita yfir 60 milljarða kr. á næstu fjórum árum til samgöngumála á sviði vegamála, þjónustu og uppbyggingar. Þetta eru hærri fjárhæðir en áður hefur verið varið til vegamála á Íslandi. Við gerum að sjálfsögðu ráð fyrir því að bæta þjónustu og byggja upp samgöngukerfið eins og áætlunin gerir ráð fyrir. Það er hins vegar alveg óhjákvæmilegt að framkvæmdir í samgöngumálum taki tillit til efnahagsumhverfisins og þess vegna þurfum við að hafa breytileg framlög frá einu ári til annars í samræmi við fjárlög vegna samgöngumálanna og þá vegamálanna.

Ég vil vekja athygli á einu atriði sérstaklega í þessari áætlun. Í fyrsta skipti eru umferðaröryggismál hluti af samgönguáætlun. Umferðaröryggismál eru rauði þráðurinn í gegnum allar þær framkvæmdir sem við gerum ráð fyrir og við leggjum megináherslu á að ná árangri í því að bæta öryggi á vegum landsins með þessari áætlun. Þess vegna er hún afar mikilvæg og ég fagna þeirri samstöðu sem náðist innan samgöngunefndar Alþingis um hana. (Gripið fram í.)