131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[11:32]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég hef alltaf litið þannig á að vegagerð sé sameiginlegt verkefni allra landsmanna. Ég viðurkenni að hafa notað flesta vegi úti á landi og líka á höfuðborgarsvæðinu og gleðst yfir því grettistaki sem lyft hefur verið í vegamálum um allt land. Hygg ég að þannig sé farið um flesta borgara landsins. Þess vegna hef ég ekki verið að skipta mér neitt sérstaklega af vegáætlun þau tíu ár sem ég hef setið á þingi en hv. þingmenn skulu ekki halda að það sé áhugaleysi eða að ég hafi ekki tekið eftir árlegu baktjaldamakki og ýfingum og ýtingum í kringum vegáætlun með tilheyrandi tilfinningaupphlaupi. Eru þar aðallega á ferðinni hv. landsbyggðarþingmenn sem virðast telja það meginhlutverk sitt á löggjafarsamkundunni að byggja vegi, brýr og grafa skurði.

Nú virðist þessi þingmannahópur hafa skotið yfir markið og hrifsað til sín of stóran bita af kökunni og valdið uppnámi á höfuðborgarsvæðinu. Sú tillaga sem við ræðum hér er viðbrögð við því og ég skil hv. þm. Gunnar Birgisson fullvel. Engu að síður greiði ég atkvæði gegn tillögu hans vegna þess að hún undirstrikar og mun skerpa enn frekar á þeirri hugsun að vegir og samgöngur komi bara hverju svæði við. Því er ég mótfallinn og skora á hv. landsbyggðarþingmenn að gæta sín á næsta ári.