131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Athugasemd.

[12:04]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Nú hefur það auðvitað margsinnis gerst að hv. þingmenn hafa lagt fram fyrirspurnir um efnisatriði sem eru aðgengileg öllum, jafnvel á netinu, vegna þess að þeir hafa talið rétt að þær upplýsingar lægju fyrir og kæmu fram í þingtíðindum. Það er mjög eðlilegt.

Mér heyrist á hv. þingmönnum að þeir átti sig ekki á því um hvað fyrirspurnin fjallaði, hún fjallaði um flutning á störfum stofnana sjávarútvegsráðuneytisins út á land, Fiskistofu, Rannsóknastofu fiskiðnaðarins og Hafrannsóknastofnunarinnar. Nú heyri ég ekki betur á hv. þingmanni en að ég hafi móðgað hann með því að svara hluta af fyrirspurninni á opnum fundi í Vestmannaeyjum. (Gripið fram í: Er það úti í bæ?) Þannig virðist ég hafa móðgað hv. þingmann, með því að svara úti í bæ. Hv. þingmaður telur þá að hafi hann borið fram fyrirspurn um eitthvert atriði megi viðkomandi ráðherra ekki tala um málefnið annars staðar. Ég hélt að hv. þingmaður hefði átt að verða glaður og ánægður yfir því að um þetta væri fjallað á fundi í heimabæ hans, opnum fundi þar sem ég reyndar gerði ráð fyrir að hv. þingmaður yrði mættur, en hann var það ekki. Hann hefði átt að gleðjast yfir því sem ég hafði fram að færa í þessu að hluta til, þetta er bara að hluta til hvað fyrirspurnina varðar, að það yrði borið fram á fundi fyrir framan hans eigin kjósendur. Þetta voru ekki mínir kjósendur, heldur voru það hans kjósendur sem fengu að heyra hluta (Gripið fram í.) af þessu svari … (Gripið fram í.) Ég er ekki í því kjördæmi, hv. þingmaður, eins og þú veist. Ég hélt að hann yrði glaður yfir því að í hans heimabæ, hans kjördæmi, þar sem kjósendur hans væru til staðar, fengju þeir að heyra hluta af þessu svari.

Þetta er mjög sérstök og einkennileg staða og ég fer fram á það, herra forseti, að mega leggja fram skriflega svarið sem (Forseti hringir.) þingskjal, og til vara að fá að leggja það fram á lesstofu.