131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Frestun á fundum Alþingis.

816. mál
[12:19]

Margrét Frímannsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem komið hafa fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni og minni enn og aftur á þá tillögu sem við, núverandi og fyrrverandi hv. þingflokksformenn Samfylkingarinnar, höfum flutt. Ég minni þó einnig á það að starfsáætlun þingsins er lögð fram að hausti og það gerist æðioft að við ræðum þetta að vori. Þegar komið er að starfslokum förum við í þessa umræðu.

Eðlilegt er að taka hana upp þegar starfsáætlun þingsins er lögð fram að hausti. Ég vil beita mér fyrir því, hæstv. forseti, að þingflokksformenn ásamt hæstv. forseta þingsins ræði þessi mál í sumar. Ég tel eðlilegt að við gerum það, bæði í ljósi þess þingmáls sem hér liggur fyrir og þeirra sjónarmiða sem komið hafa fram hjá hv. þingmönnum, og síðan getum við í aðdraganda þess að starfsáætlunin verður lögð fram af hæstv. forseta næsta haust tekið umræðuna aftur.