131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjárframlög til stjórnmálastarfsemi.

57. mál
[13:46]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Tilefni skýrslu þeirrar sem hér er til umræðu er beiðni um skýrslu frá forsætisráðherra um fjárframlög til stjórnmálastarfsemi og starfsumhverfi stjórnmálaflokka hér á landi.

Árið 1995 skipaði þáverandi forsætisráðherra nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka sem falið var að gera tillögur um reglur um fjárhagslegan stuðning við stjórnmálaflokka og þá þætti sem slíkum stuðningi tengjast. Nefndin skilaði mjög umfangsmikilli skýrslu, þ.e. skýrslu sem telur 50 þéttskrifaðar síður, um fjármál stjórnmálaflokkanna í lok árs 1998 og setti einum rómi fram tillögur sem fólu í sér að ekki yrðu sett lög um fjármála stjórnmálaflokkanna og yrði byggt á annarri almennri löggjöf um þeirra mál. Sú niðurstaða felur í sér sameiginlega afstöðu stjórnmálaflokkanna til málsins þegar síðast var eftir henni leitað.

Ég tel ekki eðlilegt að forsætisráðherra sem æðsti fulltrúi framkvæmdarvaldsins setji fram ítarlega stefnumörkun sem gengur gegn sammæli stjórnmálaflokkanna um fyrirkomulag löggjafar um fjármál þeirra, heldur sé eðlilegra að stjórnmálaflokkarnir hafi sjálfir frumkvæði að breytingum á löggjöf um þetta efni. Efnistök þessarar skýrslu ber að skoða í þessu ljósi.

Það kemur fram í skýrslunni að stjórnmálaflokkarnir fá framlög frá hinu opinbera með þrennum hætti. Heildarstuðningur til flokkanna nemur nú 295 millj. kr. á ári sem er liðlega 60% aukning frá árinu 2000 að nafnvirði. Í fyrsta lagi ber að nefna framlög til sérfræðilegrar aðstoðar við þingflokka samkvæmt ákvæðum laga nr. 56/1971 og í öðru lagi njóta stjórnmálaflokkar sem fengið hafa a.m.k. 2,5% atkvæða í alþingiskosningum fjárstuðning úr ríkissjóði. Árið 2004 nam þessi stuðningur samtals 200 millj. kr. Þá eru í þriðja lagi á fjárlögum veitt framlög til stjórnmálaflokka til að mæta auknum kostnaði þeirra vegna stækkunar landsbyggðarkjördæma og breyttra aðstæðna þingmanna af þeim sökum. Fjárhæð þessara framlaga er samtals 40 millj. kr. á þessu ári.

Í skýrslunni kemur einnig fram að engar nákvæmar upplýsingar liggja fyrir um framlög frá einstaklingum og lögaðilum til stjórnmálaflokkanna. Skattyfirvöld skrá heildarsamtölu þess sem fært er til frádráttar tekjuskatti vegna gjafa og framlaga til kirkjufélaga, líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa. Ekki er hægt að fá upplýsingar um hve mikið af þessu er vegna stjórnmálaflokkanna einna, enda er það ekki skráð sérstaklega.

Á alþjóðlegum vettvangi hefur orðið mikil þróun í þessum efnum á undanförnum árum. Fjölmargar alþjóðastofnanir fjalla nú um fjárhagslega umgjörð stjórnmálaflokka í samhengi við bætta stjórnarhætti, lýðræðislega ábyrgð, viðbrögð við mútubrotum og baráttu gegn spillingu. Þessa gætir í samstarfi um bætta stjórnarhætti innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar en lengst er vinna að þessu leyti komin á vettvangi Evrópuráðsins. Þar er skipulegt samstarf sem hefur að markmiði að berjast gegn spillingu og aðildarríkin sæta úttektum svokallaðrar Greco-nefndar sem hefur að markmiði bætta stjórnarhætti og baráttu gegn spillingu.

Eins og fyrr segir varð niðurstaða stjórnmálaflokkanna sú árið 1998 að ekki skyldu sett sérstök lög um starfsemi eða fjárreiður stjórnmálaflokkanna. Síðan hefur umræða um þetta efni haldið áfram hér á landi og erlendis, og þróunin víðast hvar gengur í þá átt að meira gagnsæi sé á þessu sviði sem og öðrum sviðum þjóðmála. Það sem verður samt að varast í þessu sambandi er að settar verði reglur sem leiði til þess að stjórnmálaflokkarnir eigi enn erfiðara en nú með að afla sér fjár til starfsemi sinnar. Þeir eru hornsteinn lýðræðisins og þurfa sem slíkir á fé að halda til öflugrar starfsemi. Mín reynsla af stjórnmálastarfi er hins vegar sú að flokkarnir berjist í bökkum fjárhagslega. Þar eru engar peningamaskínur á ferð, eins og þingmenn vita allir.

En það er fleira sem vert er að skoða í þessu sambandi. Við verðum að gæta þess að gera fólki kleifa þátttöku og frama í stjórnmálum án tillits til efnahags. Þótt prófkjör og kosningar um einstaklinga innan flokkanna séu öðrum þræði lýðræðislegar mega þær ekki valda því að hæfileikafólk dragi sig í hlé af fjárhagsástæðum.

Í ljósi þessa alls sem hér er rakið er það skoðun mín að tímabært sé að setja aftur á fót nefnd fulltrúa stjórnmálaflokkanna sem hafi það verkefni að leggja mat á þörf fyrir löggjafarumbætur á þessu sviði. Hinn 20. apríl sl. ritaði ég því formönnum allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi bréf og óskaði eftir því að þeir tilnefndu fulltrúa í níu manna nefnd til að fjalla um lagalega umgjörð stjórnmálastarfseminnar. Vænti ég þess að sú nefnd geti hafið störf hið allra fyrsta.

Virðulegi forseti. Hef ég lengri tíma?

(Forseti (JBjart): Tíminn mun vera liðinn.)

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að brjóta nein tímamörk, þess vegna spurði ég. Ég gæti hins vegar talað lengur um þetta mál en ég mun fá tækifæri til þess í lok umræðunnar.

(Forseti (JBjart): Hæstv. forsætisráðherra hefur tök á því í lok umræðunnar að koma því að sem upp á vantaði í þessari ræðu.)