131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjárframlög til stjórnmálastarfsemi.

57. mál
[14:06]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að þessi umræða, þótt knöpp sé, fer nú fram og ég fagna því sérstaklega að nefnd kemur til með að taka til starfa sem skipuð er af hæstv. forsætisráðherra til að fara á nýjan leik yfir það viðfangsefni hvort hér sé ekki þörf á lagaramma um stjórnmálastarfsemina og fjármál. Vegna þess sem vitnað er í niðurstöður nefndar frá árinu 1998 þarf a.m.k. að vera ljóst að þó svo að niðurstaða nefndarinnar í skýrslu hafi verið sú að ekki var lögð til lagasetning liggur alveg fyrir að það var ekki afstaða allra stjórnmálaflokka í landinu þá, og þaðan af síður er það nú, að ekki síður þyrfti slíka löggjöf. Það liggur algerlega fyrir að þá höfðu flokkar á stefnuskrá sinni að sett skyldi slík löggjöf þó að ekki næðist um það samstaða í formi tillagna út úr þessu nefndarstarfi.

Síðan hefur líka margt að borið og mikið vatn til sjávar runnið. Þannig eru t.d. komin fram núna tilmæli frá Evrópuráðinu sem Ísland þarf að taka alvarlega og taka mark á þar sem beint er til ríkjanna að grípa til ákveðinna ráðstafana. Ég er að vitna í tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins frá því í apríl 2003.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur frá upphafi skipað fjármálum sínum þannig — og það er ekkert grín, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, og það er í alvöru — að bókhald okkar er opið. Það er öllum aðgengilegt og það geta allir kynnt sér, blaðamenn jafnt sem aðrir, á landsfundum okkar. Bókhaldið er endurskoðað af löggiltum endurskoðanda. Hlutverk þess endurskoðanda og innri endurskoðanda flokksins er m.a. að sannreyna að þær reglur sem við höfum sett okkur um fjármál og móttökur fjárframlaga séu virtar. Löggiltur endurskoðandi leggur embættisheiður sinn að veði fyrir því að bókhaldið sé rétt upp gert. Við höfum gert grein fyrir kosningauppgjöri sérstaklega. Við höfum birt bráðabirgðauppgjör og síðan endurskoðað uppgjör á kosningabaráttunni sem slíkri, og gjarnan birt bráðabirgðauppgjör strax nokkrum vikum eftir kosningar. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum sömuleiðis fært á heimasíðu okkar flokks sundurliðaðar upplýsingar um hlutafjáreign okkar og hagsmunatengsl úti í samfélaginu. Þegar ég fer yfir þetta, virðulegi forseti, og ber saman við tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins frá því í apríl 2003 get ég með stolti sagt að Vinstri hreyfingin – grænt framboð uppfyllir þessi tilmæli hvað varðar meðferð fjármuna sinna, nánast að öllu leyti get ég fullyrt og þannig á það auðvitað að vera. Við höfum sett okkur reglur um að taka ekki við fjárframlögum að hærri upphæð en 300 þús. kr. frá einstökum styrktaraðila innan árs nema að gefa upp nafn þess sem meira veitir. Það er fylgst með því að þessar reglur séu virtar í gegnum endurskoðunarferli reikninganna eins og áður sagði.

Það er skoðun mín og hefur lengi verið að setja þurfi rammalöggjöf um fjármál og stjórnmál á Íslandi. Það þarf að rökstyðja mjög vel ef það á að halda að Ísland, nánast eitt vestur-evrópskra og vestrænna lýðræðisríkja, geti réttlætt það að hafa enga slíka löggjöf. Hvernig stendur á því að nágrannalöndin, nánast öll með tölu, að kannski einu undanskildu þar sem er Sviss, telja þörf fyrir slíka löggjöf og hafa verið að þróa hana og endurskoða á undanförnum árum? Til viðbótar löggjöfinni gilda síðan starfsreglur og siðareglur, bæði innan stjórnsýslunnar og á löggjafarsamkomunum í löndunum í kringum okkur. Það sem þarf að kveða á um í slíkri löggjöf er númer 1 mikilvægi þess að stutt sé við stjórnmálastarfsemina með fjárframlögum, lýðræðisins vegna. Ég tek undir að það má ekki alltaf tala um þetta sem varnarbaráttu gegn inngróinni spillingu. Við skulum líka ræða hina hliðina sem er mikilvægi þess að hin lýðræðislega stjórnmálastarfsemi og heilbrigð skoðanamyndun og heilbrigð umræða geti farið fram í þjóðfélaginu og að stjórnmálin séu varin fyrir óhóflegum áhrifum fjármagnsins. Það er ekki síst um það sem þessar reglur eiga að vera, að stjórnmálin fái að lifa heilbrigðu, sjálfstæðu lífi og séu ekki undirseld afli fjármagnsins. Nóg er samt. Það þurfa að vera skýrar reglur um það með hvaða hætti opinberir aðilar styðja við lýðræðið, styðja við stjórnmálastarfsemina. Þar þarf líka að taka tillit til aðstöðumunar flokka sem eru í stjórn og hinna sem eru í stjórnarandstöðu. Í Svíþjóð og Kanada er þetta gert með mjög þroskuðum hætti, t.d. þannig að stjórnmálaflokkar í stjórnarandstöðu fá tvöfaldan grunnstuðning frá ríkinu til að vega upp aðstöðumuninn sem þeir eru í gagnvart þeim sem með völdin fara og hafa kerfið á bak við sig. Það þarf að sjálfsögðu að setja reglur um móttöku fjárframlaga um möguleg þök í þeim efnum, um upplýsingaskyldu, bókfærslu og meðferð slíkra hluta.

Það þarf að setja reglur sem taka líka til sveitarstjórnarstigsins. Að sjálfsögðu þarf að fara yfir það hvort þar þurfi ekki líka að koma í aðalatriðum sambærilegar reglur. Við erum hér með sveitarfélag sem langt yfir þriðjungur þjóðarinnar býr í, höfuðborgina. Það er ekki lítill hluti af lýðræðinu sem snýr að því sem þar fer fram, svo að dæmi sé tekið. Og það þarf líka að setja reglur sem taka til annarra kosninga, svo sem eins og fjármála í tengslum við kosningu forseta lýðveldisins og þjóðaratkvæðagreiðslna ef til slíks kæmi, t.d. hvort ekki bæri þá að styrkja talsmenn meginsjónarmiða með og á móti málstað þannig að lýðræðisleg umræða og upplýsingagjöf geti farið fram. (Forseti hringir.)

Það sem mestu máli skiptir þó er að fyrirbyggja óþarfatortryggni með því að hafa reglurnar fyrir hendi og með því að hafa þessa hluti þannig að þeir séu yfir vafa hafðir. (Forseti hringir.)