131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Loftferðir.

699. mál
[14:53]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða frumvarp um loftferðir, að mörgu leyti ágætt mál. Ég skrifa undir nefndarálit samgöngunefndar með fyrirvara og eins og segir í nefndarálitinu lýtur fyrirvari minn aðallega að 9. gr. frumvarpsins, sömu grein og hv. þm. Jón Bjarnason var að ræða áðan. Fyrirvari minn snýr aðallega að lokum 9. gr. sem hljóða svo, með leyfi forseta:

„Samgönguráðherra getur ákveðið að vopnaðir verðir séu um borð í íslensku loftfari í almenningsflugi enda séu til þess brýnar ástæður, beiðni hafi borist frá flugrekanda að kröfu erlends ríkis þess efnis og dómsmála- og utanríkisráðherra mæli með því.

Samgönguráðherra er heimilt að banna eða setja reglur um flutning annars varnings en hergagna til að halda uppi allsherjarreglu og öryggi.“

Ég geri ekki athugasemd við þessa síðustu málsgrein heldur þá næstsíðustu, um að í íslensku farþegaflugi verði heimilað að hafa vopnaða verði, að heimilt sé að setja inn í lög að svo geti verið og að áðurnefndir ráðherrar geti tekið ákvörðun um það.

Ég er almennt séð andvígur því að vopnaburður sé leyfður í almennu farþegaflugi. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að svo kann að fara að um þetta verði á komandi árum settar alþjóðareglur eða reglur sem nái m.a. til Evrópska efnahagssvæðisins varðandi alþjóðaflug sem við þyrftum að undirgangast. Þá tökumst við á við það með samræmdum reglum og samræmdri útfærslu. Hér tel ég að verið sé að opna á sérákvæði er varðar Ísland án þess að um þetta hafi verið samið almennt á alþjóðavettvangi. Eins og ég gat um áður er ég andvígur þessu ákvæði. Það er trú mín að það bæti ekki öryggi eða ástand um borð í flugvélum almennt að menn gangi þar með skotvopn, enda sakna ég mjög umræðunnar um það að menn hafi reynt einhver önnur úrræði sem e.t.v. mætti heimila um borð í flugvélum til að bregðast við hugsanlegum aðilum sem þar væru til vandræða eða árásar þótt ekki væri beinlínis um skotvopn að ræða.

Ég held að mikil umræða eigi eftir að fara fram meðal þjóða á komandi árum um það hvernig þessum öryggisatriðum verði fyrirkomið og hvort vopnaburður almennt verði leyfður eða einhver önnur öryggistæki eða öryggisaðgerðir, og að áætlanir verði settar upp til að bregðast e.t.v. við árásum um borð í flugvélum. Almennt tel ég að það væri mjög til bóta ef ekki yrði í þeim reglum heimiluð meðferð skotvopna um borð í flugvélum. Það er bara mín skoðun og þess vegna er ég algerlega andvígur þessu ákvæði í 9. gr. og mun ekki greiða henni atkvæði mitt.