131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Loftferðir.

699. mál
[15:03]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður veit hafa alþjóðareglur, og ekki síst í Bandaríkjunum, breyst mjög eftir hörmungarnar 11. september árið 2001 og það meira en liggur í loftinu að gefnar hafa verið út yfirlýsingar, mjög alvarlegar, frá bandarískum stjórnvöldum um að þau muni taka slíkar reglur upp. Ég vek jafnframt athygli á því að hér er einungis verið að opna fyrir heimildarákvæði sem þá er hægt að grípa til ef bandarísk stjórnvöld setja þessa reglu sem ég hygg að muni gerast áður en langt um líður. Þetta er einungis heimildarákvæði og ég hef ekki trú á því að íslensk flugfyrirtæki muni nýta þessa heimild nema þau verði neydd til þess. Við erum einungis að opna fyrir þessa heimild og mér finnst skipta þar höfuðmáli fyrir samgöngur okkar Íslendinga að hafa þann sveigjanleika að okkar öflugustu flugfélög geti unnið á alþjóðamarkaði sínum. Þar eru Bandaríkin lykillinn að velgengni Flugleiða.