131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Skipan ferðamála.

735. mál
[15:10]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða ágætismál þar sem megintilgangurinn er að gera skipulagsbreytingar til að færa veitingu leyfa frá samgönguráðuneytinu til þeirrar stofnunar sem fer með ferðamál, Ferðamálastofu sem áður var Ferðamálaráð. Segir í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Er þetta liður í þeirri þróun sem átt hefur sér stað varðandi flutning annarra leyfisveitinga frá ráðuneytinu til stofnana þess. Sem dæmi má nefna að leyfi til að stunda leigubifreiðaakstur og hópferðaleyfi hafa verið flutt til Vegagerðarinnar og endurveiting ökuréttinda til lögreglustjóra.“

Hér er um að ræða mál sem felur í sér ágætar breytingar enda styðjum við það án fyrirvara.

Í þessu samhengi höfum við rætt töluvert um markaðsmál ferðaþjónustunnar, öryggismál, allan ytri ramma þessarar miklu atvinnugreinar og þann grunn sem hún stendur á sem oft og tíðum er býsna veikur og brokkgengur miðað við það hve umfangsmikinn atvinnuveg er um að ræða sem skilar orðið þjóðarbúinu tugum milljarða á ári hverju. Vöxturinn í greininni hefur verið með miklum ágætum á öllum undanförnum árum og vakti sérstaka athygli og jákvæða hve mikið umfang og uppgangur ferðaþjónustunnar hefur verið þrátt fyrir þann samdrátt sem víða átti sér stað í ferðaþjónustu í heiminum eftir hryðjuverkin hræðilegu 11. september 2001. Samt sem áður hélt greinin áfram að vaxa hérlendis, einnig þrátt fyrir það að stjórnvöld hafi skorið niður það fé sem veitt er til markaðs- og kynningarmála erlendis. Hefur það verið gagnrýnt mjög harkalega, til að mynda af Samtökum ferðaþjónustunnar, og við höfum tekið mjög undir þá gagnrýni þar sem auðvelt er að færa rök fyrir því að fjármunir þeir sem veittir eru til að kynna Ísland betur, meira og ákafar á erlendri grund hljóta að koma margfalt til baka miðað við þá miklu aukningu sem átt hefur sér stað á ferðamannakomum hingað til landsins á allra síðustu árum. Sú aukning hefur verið ævintýraleg þannig að ferðamenn telja hundruð þúsunda og styttist óðfluga í að við náum því markmiði sem einu sinni virtist svo óralangt í burtu, þ.e. að ferðamenn til landsins telji hátt í 1 milljón.

Eins og ég segi eru þær breytingar sem hér eru lagðar til í frumvarpi til laga um skipan ferðamála jákvæðar. Þær beindu sjónum að mörgu því sem betur mætti fara og kemur fram í þingsályktun sem lýtur að stöðu ferðaþjónustunnar. Þar eru mörg háleit markmið sett fram sem vonandi ná fram að ganga á næstu árum, svo sem um menntunarmál greinarinnar en þau eru í lamasessi og það hve mikilvægt er að um er að ræða heilsársatvinnugrein í stað þess að ferðaþjónustan hefur fram undir þetta einungis byggt á þeim örfáu mánuðum sem sólin skín á Íslandi. Það hlýtur að vera meginmálið að dreifa hingaðkomu ferðamanna miklu betur yfir árið þannig að greinin búi yfir meiri stöðugleika og að kjölfesta þar eflist verulega. Það er reyndar önnur umræða. Þetta mál sem hér um ræðir felur í sér jákvæðar breytingar að okkar mati hvað varðar leyfisveitingar og það að byggja betur og áfram undir greinina, auka öryggi, efla grunn hennar, nútímavæða umgerð ferðaþjónustunnar sem mest verða má. Því styðjum við, þingmenn Samfylkingarinnar og aðrir stjórnarandstöðuþingmenn sem í nefndinni sátu, þetta mál.