131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Skipan ferðamála.

735. mál
[15:14]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hv. formaður samgöngunefndar Guðmundur Hallvarðsson hefur gert grein fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um skipan ferðamála. Þetta frumvarp felur í sér að verið er að stofna nýja ríkisstofnun — við skulum alveg gera okkur grein fyrir því — og fela henni ákveðin stjórnsýsluverkefni. Í sjálfu sér hef ég ekkert við það að athuga að það sé gert ef það er gert mjög ígrundað. Þau verkefni sem þarna er verið að fela þessari stofnun eru á margan hátt eðlileg. Ferðamál í landinu eru að verða ein umfangsmesta atvinnugreinin og þess vegna er ekkert óeðlilegt að hún fái einhvern stjórnsýslulegan sess miðað við aðrar atvinnugreinar. Ég styð þá nálgun málsins og þau verkefni sem gert er ráð fyrir að fari undir þessa stofu.

Í nefndarálitinu er sú prentvilla að ég sé ósamþykkur álitinu. Hv. formaður nefndarinnar hefur leiðrétt það. Ég er samþykkur álitinu með ákveðnum fyrirvörum þó sem ég ætla stuttlega að nefna núna. Í fyrsta lagi tel ég að hvorki sé gerð grein fyrir því hvernig eigi að fjármagna þessa stofnun, hvað hún muni kosta né heldur hvaða fjárhagsleg áhrif þetta muni t.d. hafa á samgönguráðuneyti þar sem verið er að taka verkefni þar út. Fjárhagsramminn um stofnunina er þess vegna í óvissu og umsögn fjármálaráðuneytisins hvað það varðar er að mestu leyti út í hött. Þessar umsagnir fjármálaráðuneytisins um kostnað við einstök frumvörp eru umhugsunarefni, þ.e. hvað þau eru að verða að mínu viti marklitlar. Það er mjög mikilvægt þegar við erum að gera svona samþykktir og stofna nýjar stofnanir að við gerum okkur grein fyrir því eins og kostur er hvað það muni kosta. Þetta tel ég ekki hafa verið gert.

Gagnvart hinu tel ég svo almennt að við eigum að vera á varðbergi, þ.e. að setja upp ráð eins og í þessu tilfelli ferðamálaráð þegar búið er að ákveða stofnun sem á að hafa verkefnin. Hér er verið að búa til eitthvert stjórnsýsluhlutverk fyrir ferðamálaráð. Stjórnsýslan á að vera einföld. Forstöðumaður þessarar stofnunar er ráðinn af ráðherra. Ráðherra hefur ábyrgð á lögum og reglugerðum og hann getur hverju sinni kallað þá til sem hann vill til að fá um það leiðsögn. Hann hefur þar frjálst val, eðlilega, og á að vera þess umkominn að geta kallað til þá aðila sem honum finnst traust í og nauðsynlegt að bera undir þau lög og reglugerðasmíð sem hann hefur með höndum en ekki vera að binda sig við eitthvert ráð og finna því einhverja stjórnsýslulega stöðu. Ég slæ því varnagla við svona hugmynd.

Hitt get ég svo tekið undir, eins og kemur fram í nefndarálitinu, að það hefði þurft að taka betur á fagmennskunni, kröfum til menntunar og jafnvel því hver gefur stimpil eða leyfi, þ.e. staðfestir réttindi t.d. leiðsögumanna til að taka að sér ákveðin verkefni, bæði innlendra leiðsögumanna og þeirra erlendu sem fylgja hópum hingað inn. Ég hefði talið að Ferðamálastofa ætti að hafa þetta hlutverk og að menntunar- og gæðamálin hefðu átt að fá afmarkaðri sess.

Síðan geri ég athugasemd, frú forseti, við c-lið 14. gr. sem kveður á um tryggingar, reyndar almennt um greinina, að Ferðamálastofa eigi að taka á móti fjármunum og framvísa tryggingarfé frá ferðaskrifstofum eða öðrum og eigi að fara að halda þar sérstakan reikning. Það er eðlilegt að Ferðamálastofan hafi eftirlit með þessu, fylgist með því að þetta sé gert, en fjármunir, tryggingarfé eða annað, eiga ekki að fara inn á einhvern reikning hjá A-hluta stofnun ríkisins. Það á bara að finna því annan farveg inn í bankakerfið eða með öðrum hætti, ekki nota A-hluta stofnun ríkisins sem einhvers konar reikningshaldara fyrir tryggingarfé ferðaskrifstofa. Sömuleiðis kveður í c-liðnum á um að Ferðamálastofa hafi frjálst val eða geti metið einhverjar óskilgreindar tryggingar fyrir ferðaskrifstofur. Ég tel að hann sé mjög varhugaverður og ætti ekki að vera inni.

Þetta eru meginfyrirvarar mínir, herra forseti, en að öðru leyti tek ég undir og styð þá hugmyndafræði sem er á bak við þann ramma sem hæstv. samgönguráðherra hefur nú stillt upp, bæði varðandi stefnu í ferðamálum og Ferðamálastofu þó að ég geti ýmislegt fundið sem mætti betur fara. Ég legg áherslu á að þessi nýja stofnun verði staðsett úti á landi. Nú vitum við að það er mjög öflug ferðamálakennsla við Hólaskóla þannig að það er mjög fínt að fá þessa stofnun í Skagafjörð.

Það skulu vera lokaorð mín, herra forseti.