131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Skipan ferðamála.

735. mál
[15:20]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið þátt í mörgum nefndastörfum á Alþingi og alltaf stutt það þegar frumvörp eru flutt af hæstv. ráðherrum að þá sé ekki tilgreint ákveðið í þeim frumvörpum sem við erum að senda frá nefndunum hvar viðkomandi stofnun eigi að staðsetjast. Það hlýtur að ráðast af eðli málsins og líka jafnvel umhverfinu. Ég efa það ekki að Hólaskóli sé hin mætasta stofnun en þetta verður að vera í hendi ráðherra þannig að þetta sé valið af skynsemi eins og ætla má að þeir standi að málum.

Tal um kröfur og menntun er alveg rétt. Ég held að þetta sé mjög gott spor í þá átt að samræma gerðir þeirra sem í ferðaþjónustunni eru í ljósi þess sem við stöndum frammi fyrir að það er stór aukning á ferðamönnum til landsins. Við megum ekki missa aukninguna í ógöngur. Það þýðir þá að fólk hefur ekki sama áhuga á að koma til Íslands ef svo bæri undir að hér væri eitthvert ástand á móttöku erlendra ferðamanna.

Varðandi svo tryggingaþáttinn og öryggismálin getur það auðvitað blossað upp sem gerðist 11. september 2001, að engin trygging var til fyrir því að koma Íslendingum heim eða erlendum aðilum héðan. Ég efa það ekki að hv. þm. Jón Bjarnason minnist þess að ríkisstjórnin setti á sérstakan fund … (Gripið fram í.) Ég man það, já, hv. þingmaður. Ríkisstjórnin setti á sérstakan fund og gekkst í ábyrgð sem tryggingafélag gagnvart öllum flugflotanum sem tryggður var á Íslandi til að koma Íslendingum heim og erlendum ferðamönnum héðan frá Íslandi sem höfðu ákveðið dagsetningar. Tryggingaleysið var algjört í íslenska flugflotanum þannig að allt þetta styrkir hvað annað og ég er sannfærður um að þetta frumvarp, eins og ég held að við séum öll sammála um, sé af hinu góða.