131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[15:50]

Frsm. meiri hluta samgn. (Hjálmar Árnason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hér eru svo sem engar gleðinnar dyr, hér er dauðans alvara á ferð. Málið er af þeim toga. Það er alveg ljóst að það er allur gangur á því með hvaða hætti samskipti lögreglu og fjarskiptafyrirtækja hafa verið og það er einmitt þeirri óvissu sem er verið að reyna að eyða með þessu ákvæði. Ástæðurnar eru þær sem ég rakti í framsögu minni.

Hér er auðvitað verið að fjalla um persónulegar upplýsingar og ég get tekið undir að það er verið að leggja mikla ábyrgð á þá sem starfa hjá fjarskiptafyrirtækjum. Það er mikil ábyrgð að starfa innan fjarskiptafyrirtækja. Þess vegna einmitt er svo mikilvægt að þetta ákvæði um verklagsreglur fjarskiptafyrirtækjanna séu settar eins og gert hefur verið a.m.k. hjá einu af fjarskiptafyrirtækjunum og unnar í samráði við Persónuvernd.

Hv. þingmaður segir að það sé hyggilegra og eðlilegra að bíða eftir úrskurði dómara. Það kann vel að vera. Hins vegar féllst meiri hlutinn einfaldlega á þau rök lögreglunnar að í mörgum þessara mála þurfi að bregðast mjög fljótt við, þetta geti verið spurningin um augnabliksviðbrögð. Þess vegna féllumst við á þau rök að á meðan dómari er að lesa skjöl og velta málum fyrir sér kunni sá grunaði að vera sloppinn lögreglu úr greipum. Við tökum mið af því, auðvitað skiljum við sjónarmiðin um persónuréttinn en samúð okkar er hjá fórnarlömbunum og ef lögreglan telur að einhverjir klukkutímar geti skipt þar máli föllumst við bara á þau sjónarmið vegna þess að við höfum samúð með fórnarlömbunum.