131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[16:03]

Frsm. meiri hluta samgn. (Hjálmar Árnason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Okkur hv. þingmann greinir augljóslega á um það hvað telst gróflegt brot. Ég er ósammála því sem hv. þingmaður nefndi og hef áður sagt ástæður þess.

Persónuvernd hvetur til að ekki verði gengið lengra en nauðsyn ber til. Þá kemur þessi stóra spurning: Nauðsyn að mati hvers? Að mati Persónuverndar eða að mati lögreglu sem á hverjum einasta degi er að eltast við þessa brotamenn? Af hverju verður mér tíðrætt um þá? Það er af því að þetta ákvæði lýtur að þeim, eingöngu. Eðlilega komast þeir þá oft til tals. Það er lögreglan sem telur að þetta sé nauðsynlegt í þágu þess að upplýsa mál.

Við skulum hafa það í huga eins og ég nefndi áðan að það er líka réttur einstaklingsins að geta verið í friði vegna barna sinna, að börnin geti haft frið inni á heimilum sínum, að einstaklingurinn geti verið í friði. Við vitum að svo er ekki, m.a. vegna þess að óprúttnir náungar seilast inn á heimilin, ekki endilega í gegnum dyr eða glugga heldur í gegnum tölvu. Það er verið að bregðast við, að óskum lögreglunnar, til að geta haft uppi á þessum þrjótum, og þrjótar eru þeir. Það er ekki síst vegna varnarlausra barna og vegna þess að fólk á að hafa frið inni á heimilunum. Ég er feginn að heyra að hv. þingmaður hefur áttað sig á því að hér er einungis verið að tala um fingrafar en ekki hlerun eins og hann hélt fram í fyrra andsvari sínu. (Gripið fram í.)