131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[17:05]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir gerði áðan mjög góða grein fyrir þessu máli af okkar hálfu sem stöndum að minnihlutaáliti samgöngunefndar. Hún gerði það skilmerkilega og lið fyrir lið og rakti ágreininginn í samgöngunefnd um þetta mál.

Það er algerlega ljóst um hvað ágreiningurinn snýst, hæstv. forseti. Hann snýst um 9. gr. laganna, þ.e. að fjarskiptafyrirtækjum sé rétt og skylt að veita lögreglu í þágu rannsóknar opinbers máls upplýsingar um hver sé skráður eigandi ákveðins símanúmers eða eigandi og notandi vistfangs, IP-tölu. Um þetta snýst málið og í áliti minni hlutans segir, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn bendir á að sé vilji til þess hjá löggjafanum að auka heimildir lögreglu til aðgangs að persónuupplýsingum við rannsókn opinberra mála sé eðlilegt að gera það með breytingu á lögum um meðferð opinberra mála þannig að unnt sé að hafa yfirsýn yfir slíkar heimildir og átta sig á umfangi þeirra. Að þessu er m.a. vikið í umsögn símanefndar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Þar er tekið fram að nefndin telur æskilegt að endurskoðun á ákvæðum laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, sem snerta málefnið, 86.–88. gr., hefði farið fram samhliða endurskoðun fjarskiptalaga. Persónuvernd bendir einnig á það í sínum umsögnum að nauðsynlegt sé að samræmis sé gætt á milli laga um meðferð opinberra mála og laga um fjarskipti, og mikilvægi þess að öllum lagaákvæðum um rannsóknarúrræði lögreglu verði skipað í sama lagabálk, þ.e. lög um meðferð opinberra mála.“

Undir þessi rök tökum við í minni hlutanum. Því höfum við eðlilega hvatt til þess að 9. gr. verði felld úr frumvarpinu og ekki samþykkt á Alþingi. Síðan mætti taka málið til nánari skoðunar. Ég spyr eins og fyrri ræðumenn hér. Hvers vegna liggur svona ofboðslega á? Hvers vegna er ekki hægt að fjalla um þetta mál í sumar og setja fram mál í vandaðri framsetningu í réttu lagaumhverfi? Er ekki hægt að koma með slíkar breytingar í október næstkomandi þegar þing kemur saman ef menn vilja festa slíkar heimildir í lög, sem er reyndar mikill ágreiningur um hvort standist yfirleitt stjórnarskrá Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu? Það er spurning hvort við færum ekki langt út fyrir það með þessu. Minni hlutinn telur að svo sé en við bendum samt á að ef setja ætti slíkar heimildir í lög þá gangi þetta mál út á að setja þau ákvæði inn í vitlausan lagabálk og við ættum að færa slíkt í lög um meðferð opinberra mála.

Ég held, hæstv. forseti, að með þessum breytingum stefni í lagalegt klúður. Ef þetta verður lögfest, með þessi ákvæði inni í fjarskiptalögunum, þá eru allt önnur ákvæði í lögum um meðferð opinberra mála sem kveða á um að við skulum vernda persónuréttindi og friðhelgi einkalífsins og að fá þurfi úrskurð dómara til að skoða mál sem snúa að persónufrelsi einstaklinga.

Við höfum bent á að ef menn ætla með þetta í gegn þá væri eðlilegt að menn leituðu umsagnar dómara og úrskurðar hans um hvort leyfilegt væri að komast þannig að þeim upplýsingum sem menn sækjast eftir um símanúmer og IP-tölur.

Hæstv. forseti. Símtöl og tölvuviðskipti eru skráð og samkvæmt frumvarpinu á að varðveita þau í a.m.k. sex mánuði. Þau tapast ekki og símanúmer og IP-tala tapast ekki þannig að ég átta mig ekki á því sem hér hefur verið haldið fram, að svo mikinn hraða þurfi til að koma í veg fyrir að upplýsingar glatist. Ég held að þar færi menn fram rök sem ekki halda, hæstv. forseti.

Ég ætla ekki að fjalla mikið meira um þetta mál. Ég tel að því hafi verið gerð góð skil í máli í framsögu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur svo að ég bæti þar ekki mikið um. Ég get þó nefnt eitt dæmi, hæstv. forseti, um lagaklúður á borð við það sem við stefnum í hér. Ég hef einu sinni upplifað að lenda í svona lagaklúðri.

Þannig var að í lögum um stjórn fiskveiða voru á sínum tíma sett inn tvö ákvæði, annars vegar um að bannað væri að henda fiski í sjóinn og hins vegar að það væri bannað að koma með fisk að landi, þ.e. ef hann væri ekki í kössum eða körum. Ég lenti einu sinni í því, hæstv. forseti, rétt fyrir 17. júní eitt árið, að fá meiri fisk en ég hafði ílát undir. Þá stóð ég frammi fyrir spurningunni um hvor lögin ég ætti að brjóta? Átti ég að henda fiskinum í sjóinn og koma með þann fiskinn í land sem var í ílátunum eða átti ég að koma með allan aflann að landi og einnig þann sem ekki var í ílátum heldur laus á millidekki, sem var þá bannað? Viti menn. Ég ákvað að fara í land, ná í ís og kasta í kör og ganga frá fiskinum. Seinna fékk ég á mig kæru frá sýslumanni þar sem ég var kallaður fyrir út af þessu máli. Mér var tilkynnt að ég hefði brotið lögin með því að koma með lausan fisk að landi. Ég sagði við sýslumann: Þetta er alveg hárrétt hjá þér, sýslumaður góður. Og nú skaltu ákveða eftir hvoru lagaákvæðinu þú ætlar að dæma mig. Síðan benti ég honum á lagaákvæðin sem stönguðust algerlega á eins og lögin virðast munu gera ef við festum umrædd ákvæði í fjarskiptalög þar sem segir allt annað í lögum um meðferð opinberra mála um persónurétt.

Svona lagaklúður eigum við ekki að láta frá okkur á Alþingi. Ég sé ekkert sem knýr svo á um að flýta þessu máli að það megi ekki klára það með því að taka 9. gr. út úr, vinna hana betur, og leggja fram tillögur um með hvaða hætti við göngum frá þeirri hlið málsins í október.