131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

677. mál
[17:31]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um frumvarp til laga um uppboðsmarkaði sjávarafla. Málið var tekið fyrir í sjávarútvegsnefnd. Töluverð umræða fór fram um frumvarpið og gerði meiri hluti sjávarútvegsnefndar nokkrar breytingartillögur sem unnar voru í góðri samvinnu við fulltrúa fiskmarkaða svo og sjávarútvegsráðuneytis.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfesta ný heildarlög um uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla. Meðal breytinga sem gert er ráð fyrir er að leyfi til rekstur uppboðsmarkaða verði ótímabundin. Áður þurfti að sækja um leyfi árlega. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglur um uppboðsmarkaði sem taki til allra uppboðsmarkaða á landinu. Áður þurfti ráðherra að staðfesta starfsreglur hvers markaðar fyrir sig. Hér er um hagræðingu að ræða fyrir kaupendur og seljendur sjávarafla með því að samræma umhverfi viðskipta með sjávarafla.

Ég mun gera grein fyrir breytingartillögum sem meiri hluti sjávarútvegsnefndar leggur til á sérstöku þingskjali en þær eru unnar í góðri sátt við fulltrúa fiskmarkaðanna hér á landi. Það varð töluverð umræða um hvort ekki ætti að vera í frumvarpinu neitt lágmarksverð til samræmis við lágmarksverð sem verðlagsstofa skiptaverðs leggur til. Á uppboðsmörkuðum er það markaðsverð sem ræður hverju sinni. Ef taka ætti upp lágmarksverð, svipað og gildir erlendis, er ég hræddur um að við mundum lenda í skelfilegum málum. Hvað á að gera við fisk sem ekki selst á lágmarksverði? Setja hann í bræðslu? Hver á að borga áfallinn kostnað? Hver á að setja lágmarksverðið? Svona mætti lengi spyrja og fátt yrði um svör, er ég hræddur um.

Fiskmarkaður er markaður og verð skapast af framboði og eftirspurn. Það var töluverð umræða um hvort hægt væri að „gambla“ með verð á fiskmarkaði en ég sé ekki hvernig það ætti að gerast. Allar sölur eru skráðar í uppboðskerfið og aðgengilegar öllum þeim sem eftir þeim leita. Ekki má heldur gleyma því að enginn er þvingaður til að selja fisk á markaði. Seljendur hafa valið um erlendan markaði, beina sölu og oftar en ekki fasta samninga við fiskvinnslufyrirtæki. Bestu og helstu eftirlitsaðilar eru viðskiptavinir uppboðsmarkaðanna og enginn færi að hlunnfara bestu viðskiptavini sína eða þá aðila sem skapa eftirlit með því að stunda viðskipti á uppboðsmörkuðum á hverjum virkum degi.

Virðulegi forseti. Einnig var rætt um eignarhaldið. Eignarhaldið má aldrei verða til þess að upp komi minnsti efi um óhlutdrægni fiskmarkaðanna gagnvart viðskiptavinum sínum og jafnvel gagnvart hinu opinbera. Það er þess virði að skoða einhverjar þær leiðir sem mundu hindra of stóran eignarhlut hagsmunaaðila. Vissulega yrði gaman ef fiskmarkaðir yrðu álitlegur fjárfestingarkostur, sem ég held reyndar að þeir séu að verða í dag. En í áranna rás hafa fiskmarkaðir átt erfitt uppdráttar. Oft hafa hugsjónamenn heima í héraði verið tilbúnir til að koma með þolinmótt fé í reksturinn til að verja starfsemina og mikilvægi fiskmarkaða á viðkomandi stað.

Töluvert var rætt um hvort kvótasala og kvótakaup eigi sér stað í tengslum við fiskmarkaði. Það er vitað um eitt dæmi um slíkt á einum fiskmarkaði hér á landi.

Einnig kom fram á fundi nefndarinnar hvaða hæfniskröfur væru gerðar til aðila sem væri ábyrgur og löggiltur til að ábyrgjast rekstur fiskmarkaðar. Hæfnisskilyrðin byggjast sennilega á því að aðili sem sækir um löggildingu sé hlutlaus og megi ekki tengjast uppboðum á einn eða annan hátt.

Virðulegi forseti. Í nefndinni var fjallað um hvort í frumvarpinu ætti að standa „uppboðsmarkaður“ eða „fiskmarkaður“. Fiskmarkaður er töluvert víðtækara heiti en uppboðsmarkaður. Fiskmarkaðir eru oft með aðra starfsemi sem ekki tengjast uppboðum á neinn hátt. Hjá fiskmörkuðum er fiskur boðinn upp á gólfi og fiskur seldur óséður en fiskmarkaðir geta einnig verið milliliðir í sölu án uppboðs. Frá því árið 1989, er núgildandi lög tóku gildi, hefur orðið mikil breyting á fiskmörkuðum. Þeir eru orðnir mun öflugri og töluverð breyting hefur orðið á starfsemi þeirra. Því var mikilvægt að endurskoða lögin. Í þessum lögum er vísað í lög nr. 55/1998, um meðferð og vinnslu sjávarafurða, þar sem kveðið er á um skyldu fiskmarkaða varðandi meðferð og vinnslu sjávarafurða.

Virðulegi forseti. Frumvarpið liggur nú fyrir ásamt breytingartillögum sem unnar eru í góðri samvinnu og sátt sjávarútvegsráðuneytisins, fulltrúa fiskmarkaða og meiri hluta sjávarútvegsnefndar. Ég mun nú kynna nefndarálit meiri hluta sjávarútvegsnefndar og breytingartillögur.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðríði Margréti Kristjánsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Bjarna Áskelsson frá Samtökum uppboðsmarkaða og Þórð Ásgeirsson og Hrefnu Gísladóttur frá Fiskistofu. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Íslandsmarkaði hf., Fiskmarkaði Vestmannaeyja, Byggðastofnun, Hafrannsóknastofnuninni, Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi kvótabátaeigenda, Alþýðusambandi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Fiskistofu, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Vélstjórafélagi Íslands og Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný heildarlög um uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla en núgildandi lög eru frá árinu 1989. Meðal breytinga sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu má nefna að lagt er til að útgefin leyfi til rekstur uppboðsmarkaða verði ótímabundin en samkvæmt gildandi lögum þarf að endurnýja þau árlega. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að ráðherra setji reglur um uppboðsmarkaði sem taki til allra uppboðsmarkaða á landinu í stað þess að ráðherra staðfesti starfsreglur hvers markaðar fyrir sig eins og nú er. Er þetta gert í því skyni að samræma viðskiptaumhverfi uppboðsmarkaða í landinu til hagræðis fyrir kaupendur og seljendur sjávarafla.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til að skilgreiningu á uppboðsmarkaði skv. 2. tölul. 2. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að hugtakið taki ekki einungis til uppboðs á sjávarafla heldur verði jafnframt heimilt að nýta uppboðskerfi fiskmarkaða við sölu á eldistegundum bæði úr ferskvatns- og sjávareldi, sem og vatnafiski og afurðum úr þessum tegundum. Loks felur hin breytta skilgreining í sér að ekki eru settar takmarkanir við uppboði á fiski þótt hann hafi ekki verið fluttur á uppboðsstað. Ekki eru hins vegar lagðar til breytingar á gildissviði frumvarpsins að því leyti að það nær einvörðungu til sölu á frjálsu uppboði og felur frumvarpið þannig í sér óbreytta stöðu mála hvað það varðar frá gildandi lögum.

Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til að gerðar verði breytingar á frumvarpinu sem fela í sér að leyfishöfum samkvæmt lögunum verði heimilt að fela reiknistofu uppboðsmarkaða, sem starfar í samræmi við reglur sem ráðherra setur, að sjá um framkvæmd uppboða og til að sinna skyldum leyfishafa samkvæmt 6. gr. frumvarpsins. Miða þessar breytingar að því að auka og tryggja sveigjanleika og hagkvæmni við rekstur uppboðsmarkaða. Loks er orðalagi refsiákvæðis frumvarpsins breytt til samræmis við önnur refsiákvæði í lögum á sviði sjávarútvegsmála.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali. Undir nefndarálitið skrifa auk mín, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, Magnús Stefánsson, Kjartan Ólafsson og Una María Óskarsdóttir.

Ég geri nú grein fyrir breytingartillögum við frumvarpið frá frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar:

„1. Við 2. gr. a. Á eftir 1. tölul. komi nýr töluliður, svohljóðandi: Reiknistofa uppboðsmarkaða: Aðili sem leyfishafi hefur falið að sjá um framkvæmd uppboða skv. 4. tölul. og þá starfsemi sem tilgreind er í 6. gr. Reiknistofa skal uppfylla þau skilyrði sem ráðherra setur með reglugerð skv. 5. gr.

b. 2. tölul. orðist svo: Uppboðsmarkaður: Markaður þar sem sjávarafli, eldistegundir bæði úr ferskvatns- og sjávareldi, vatnafiskur og afurðir úr framantöldu eru seldar á frjálsu uppboði. Uppboðsmarkaður getur jafnframt veitt aðra þjónustu sem tengist sölunni.

c. Við 4. tölul. bætist nýr málsliður sem orðist svo: Leyfishafi hefur heimild til að fela reiknistofu uppboðsmarkaða að sjá um framkvæmd uppboðs.

2. Við 4. gr. Við bætist ný málsgrein sem orðist svo: Um vigtun afla gilda ákvæði laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, og reglur sem settar eru á grundvelli þeirra eftir því sem við á.

3. Við 5. gr. Greinin orðist svo: Ráðherra skal í reglugerð kveða á um útgáfu rekstrarleyfa og starfsemi uppboðsmarkaða, þar á meðal um gagnsæi viðskipta, birtingu uppboðsskilmála og um uppboðslýsingar. Ráðherra setur jafnframt reglur um starfsemi reiknistofu uppboðsmarkaða.

4. Við 6. gr. bætist ný málsgrein sem orðist svo: Leyfishafa er heimilt að fela reiknistofu uppboðsmarkaða þann hluta starfsemi sinnar sem mælt er fyrir um í þessari grein.

5. Við 9. gr. Greinin orðist svo: Með brot gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim skal fara að hætti opinberra mála. Brot gegn ákvæðum laga þessara og reglum settum samkvæmt þeim varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi og fangelsi allt að tveimur árum sé um stórfellt eða ítrekað ásetningsbrot að ræða.“

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni 2. umr. um frumvarp þetta verði því vísað til 3. umr.