131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[18:05]

Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru ansi snautleg svör. Hv. þingmaður svaraði hreinlega ekki spurningu minni um það hvort hann teldi að þetta stangaðist ekki á við kosningaloforð hans vorið 2003.

Hins vegar sagði hann mjög athygliverðan hlut þegar hann benti á það að Eyjamenn, til að mynda í bæjarstjórn Vestmannaeyja þar sem hann var áður bæjarstjóri, hefðu oft verið duglegir við að mótmæla ýmsum stjórnvaldsaðgerðum sem væru íþyngjandi fyrir sjávarútveginn, þó kannski einkum og sér í lagi íþyngjandi í sjávarplássi eins og Vestmannaeyjum.

Nú leggst hins vegar lítið fyrir kappann þegar hann er kominn inn á þing, þá umpólast hann allt í einu. Þá er eins og skipt sé um forrit í honum, hann umpólast úr manni sem hefur verið gagnrýninn á kvótakerfið í orði en ekki á borði. Hann umhverfist í kvótasinna sem hefur fátt annað gert í ræðustól Alþingis en að koma því litla sem ekki var lengur í kvóta yfir í kvóta. Þá er helst að minnast þess sem gerðist hér fyrir nákvæmlega ári þegar ríkisstjórnarmeirihlutinn setti smábátana sem eftir voru á svokölluðu dagakerfi í kvótakerfi. Núna er höfuðið bitið af skömminni og haldið áfram, og hinar svokölluðu aukategundir sem þó voru hverfandi í afla kolmunnaskipanna eru líka settar í kvóta. Þar með er enn og aftur vegið að hagsmunum Vestmannaeyinga, kolmunnaskipa í Vestmannaeyjum, vegna þess að ég held að einhver hljóti að þurfa að borga reikningana sem berast fyrir þetta eftirlit. Enn ein eftirlitsmyllan sem lögð er á sjávarútveginn, enn einar byrðarnar. Hver mun borga þá reikninga? Hv. þm. Guðjón Hjörleifsson gat ekki svarað því.

Hann sagði hins vegar að hann hefði talað við einn skipstjóra. Hv. þm. Guðjón Hjörleifsson virðist ekki gera sér grein fyrir því að það eru um 30 skip sem stunda kolmunnaveiðar við Ísland og þeir eru fjölmargir, skipstjórarnir í þessum flota. Heldur eru það snautleg vinnubrögð þegar verið er að setja lög sem eiga eftir að kosta útgerðirnar tugi milljóna króna að ræða þá aðeins við einn mann sem hefur vit á þessum veiðum.