131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[18:15]

Frsm. 2. minni hluta sjútvn. (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem í ræðustól til að gera grein fyrir nefndaráliti mínu varðandi þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

Með þessu frumvarpi á að lögfesta að útgerðum fiskiskipa verði skylt að telja meðafla við uppsjávarveiðar til frádráttar aflamarks. Meðaflann á að meta út frá niðurstöðum sýnatöku úr afla skipanna við löndun.

Frú forseti. Þetta frumvarp er bæði illa og hroðvirknislega unnið og það á alls ekki skilið að verða að lögum. Það þarf að vinna þetta mál miklu betur. Það hefur verið staðið mjög illa að því í sjávarútvegsnefnd og ég hygg að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi látið ráðuneyti sitt semja frumvarpið án mikillar ígrundunar því að það er svo augljóst að það er alvarlega meingallað og ætti að sjálfsögðu ekki að verða að lögum núna.

Frumvarpið var lagt fram á hinu háa Alþingi þann 4. apríl og sjávarútvegsráðherra mælti fyrir því 10 dögum síðar, þ.e. 14. apríl. Þá fór það til sjávarútvegsnefndar þar sem farið var yfir málið með mjög yfirborðskenndum og slælegum hætti þrátt fyrir mótmæli mín sem skipaði þá 2. minni hluta sjávarútvegsnefndar. Voru einungis tveir aðilar kallaðir á fund nefndarinnar til að ræða um þetta frumvarp, embættismaður frá sjávarútvegsráðuneytinu og fiskifræðingur frá Hafrannsóknastofnun. Það kom berlega í ljós þegar þessir menn voru spurðir út úr um málið að hvorugur þeirra hafði neina reynslu af veiðum eða löndun á uppsjávarfiski, til að mynda kolmunna. Þeir glímdu báðir við mjög alvarlegan þekkingarskort á þessu málefni, gátu ekki svarað spurningum nefndarmanna og þess vegna óskaði ég eftir því að fleiri yrðu kallaðir til nefndarinnar til að ræða við hana áður en málið yrði afgreitt frá henni, til að mynda skipstjórar úr veiðiflotanum sem eru þeir menn sem mesta þekkingu hafa á veiðum, löndun, á þeim tegundum sem veiðast í flotvörpu hér við land, sem eru þá loðna, síld og kolmunni. Þessu var hafnað af formanni nefndarinnar. Ég óskaði líka eftir því að svokölluð umgengnisnefnd sjávarútvegsráðuneytisins sem mér skilst að í sitji fulltrúar útgerðarmanna, sjómanna, embættismenn, fiskifræðingar, menn frá Fiskistofu og jafnvel aðrir yrði kölluð fyrir nefndina. Því var einnig hafnað.

Ég benti á það að einungis fjórar umsagnir um málið hefðu borist. Þær eru allar, eða flestar, frá aðilum sem hafa lítið með kolmunnaveiðarnar að gera, Félagi kvótabátaeigenda, Farmanna- og fiskimannasambandinu, Félagi smábátaeigenda og Hafrannsóknastofnun. Reyndar er það svo að Farmanna- og fiskimannasambandið sem í eru skipstjórarnir samþykkir þetta frumvarp umyrðalaust. Það hlýtur að koma mjög á óvart því að ég er alveg sannfærður um að þetta frumvarp vegur beint að hagsmunum íslenskra skipstjórnarmanna þar sem það vegur beint að hagsmunum útgerðanna.

Virðulegi forseti. Ekki var heldur orðið við tilmælum um að fulltrúar Landssambands íslenskra útvegsmanna kæmu á fund nefndarinnar til að ræða þetta mál sérstaklega og svara spurningum frá mér og hugsanlega fleirum um þetta tiltekna frumvarp. Því var einnig hafnað. Málið var síðan afgreitt af meiri hluta sjávarútvegsnefndar með vafasömum hætti, að ég tel, því að á þennan tiltekna fund vantaði tvo fulltrúa Framsóknarflokksins. Þeir voru sem sagt ekki á fundinum, fulltrúar Framsóknarflokksins í sjávarútvegsnefnd. Þá voru kallaðir utan af gangi tveir þingmenn sem voru staddir þar fyrir tilviljun, þingmenn Framsóknarflokks úr öðrum þingnefndum sem aldrei, aldrei nokkurn tímann, hafa setið í sjávarútvegsnefnd og hafa litla þekkingu, að ég tel, á sjávarútvegsmálum, hv. þm. Dagný Jónsdóttir og hv. varaþingmaður Una María Óskarsdóttir frá Framsóknarflokki, og látnar skrifa upp á að þetta mál yrði afgreitt út úr sjávarútvegsnefnd.

Þetta tel ég vera forkastanleg vinnubrögð og segir í raun og veru meira en mörg orð um það hversu óvandað og illa unnið þetta mál er.

Virðulegi forseti. Undanfarin ár hefur notkun flotvörpu til veiða á loðnu, síld og kolmunna færst mjög í vöxt hér við land. Komið hefur fram að meðafli af öðrum tegundum gæti verið vandamál við þessar veiðar. Af þeim sökum hefur sá sem hér stendur lagt fyrirspurnir tvö ár í röð, bæði á 130. og 131. löggjafarþingi, um meðafla við flotvörpuveiðar. Svör ráðherra gefa til kynna að meðaflinn hafi einkum mælst í afla skipa sem veiða kolmunna þó að einnig megi finna dæmi um meðafla á síldveiðum.

Það hefur nokkuð verið gagnrýnt og það með réttu — því ber að halda til haga — að uppsjávarveiðiskip skuli ekki þurfa að leggja til aflaheimildir fyrir meðafla kvótabundinna fisktegunda en skip sem stunda bolfiskveiðar þurfi hins vegar alltaf að gera slíkt og þau séu líka undir ströngu eftirliti og útgerðir þeirra sæti jafnvel hörðum refsingum ef lög um þetta eru brotin.

Þá tel ég tíma til kominn að staldra við og huga frekar að því að losa um allt of ströng lög varðandi meðafla í bolfiskveiðum þannig að mönnum verði gert kleift að koma með slíkan meðafla að landi í staðinn fyrir að þurfa að leggja fram kvóta fyrir þeim afla. Mér finnst ekki réttmætt að setja illa ígrunduð og óvönduð lög um meðafla hjá uppsjávarveiðiskipum, eingöngu með skírskotun til þess að aðrir búi við vond lög og því sé rétt að láta svipuð ólög ganga yfir alla. Ég verð að segja að það eru mikil vonbrigði að sjá Guðjón Hjörleifsson, formann sjávarútvegsnefndar, þingmann í Suðurkjördæmi, sem fór þó m.a. inn á þing út á þau loforð að hann ætlaði að vinna að því að koma kolmunna úr kvóta og líka aukategundum af bolfiski, eins og keilu, löngu og skötusel, berjast núna fyrir því að koma þessum lögum sem verða sennilega sett hér í kvöld í gegnum þingið, að það skuli einmitt vera hann sem stígur fram fyrir skjöldu og færir þetta í gegn, sennilega fyrir hæstv. sjávarútvegsráðherra. Hv. formaður sjávarútvegsnefndar hefur lýst því yfir í Auðlindinni, fréttaþætti um sjávarútvegsmál, að hann sé sérstakur fulltrúi framkvæmdarvaldsins, þ.e. sjávarútvegsráðherra, í sjávarútvegsnefnd og gerir því væntanlega það sem honum er sagt.

Við vitum að kolmunnaveiðar hafa skilað þjóðarbúinu miklum verðmætum frá því að þær hófust af alvöru árið 1997. Stór hluti af aflanum hefur verið veiddur af skipum frá austanverðu landinu og þau hafa að mestu leyti landað afla sínum í fiskmjölsverksmiðjur á Austurlandi. Enginn vafi leikur á að þessar veiðar hafa skilað miklum umsvifum og virðisauka í landi og líka á sjó, á þeim tíma ársins sem áður var mjög daufur með tilliti til verkefna hjá mikilvægum hluta fiskiskipaflotans. Erlend skip hafa einnig landað kolmunna hér á landi sem að hluta til hefur verið veiddur af Færeyingum innan íslenskrar lögsögu. Síðustu fjögur árin hafa fiskmjölsverksmiðjur hér á landi tekið á móti rúmlega 1,6 millj. tonna af kolmunna. Það hefur ekki verið neitt smáræðisævintýri hér á ferð.

Við þá lagasetningu sem hér um ræðir er mjög mikilvægt að löggjafinn hafi við höndina viðurkennd gögn sem sýna umfang þeirra atriða sem hugsanleg lög skulu ná yfir. Það á ekki að vera hlutverk okkar sem sitjum á Alþingi að hlaupa á eftir kjaftasögum úti í bæ, það á ekki að vera okkar verk.

Því miður eru ekki til margar rannsóknir á meðafla í flotvörpu sem sýna umfang þessa vanda, þ.e. meðaflans. Fiskistofa hóf vorið 2003 skipulegar mælingar á meðafla við flotvörpuveiðar uppsjávartegunda. Áherslan hefur þó fyrst og fremst beinst að mælingum meðafla við kolmunnaveiðarnar þar sem hættan á honum er metin mest. Niðurstöðurnar hafa komið fram í skýrslu Hafrannsóknastofnunar og þær sýna að þetta er ekki alvarlegt vandamál þegar tillit er tekið til þess hversu hátt hlutfall af meðafla er í heildarkolmunnaafla skipanna.

Árið 2003 — og þetta er byggt á mjög takmörkuðum rannsóknum — er talið að alls hafi veiðst 156 tonn af þorski sem meðafla. Árið 2003 var móttaka íslenskra fiskmjölsverksmiðja á kolmunna heil 520 þús. tonn. Árið 2004 er uppreiknaður meðafli af þorski talinn tæp 1.700 tonn, árið 2004 veiddi flotinn okkar 480 þús. tonn af kolmunna. Við erum að tala um innan við 0,5% af heildaraflanum. Þetta er mjög lítill meðafli í fiskveiðum. Það er nánast alltaf einhver meðafli í öllum fiskveiðum, þetta verður að teljast mjög lítill meðafli.

Þrátt fyrir þá staðreynd að meðafli hefur verið mjög lítill þegar litið er til heildarafla við kolmunnaveiðarnar hafa menn brugðist við þessum vanda, að sjálfsögðu, eftir því sem reynslan hefur aukist við veiðarnar og þar með þekking manna á því hvar og hvenær mesta hættan er á því að fá þennan meðafla. Þetta er að sjálfsögðu vandamál sem þeir sem stunda veiðarnar vilja vera lausir við. Enginn gerir það að gamni sínu að veiða þorsk í bræðslu eða ufsa í bræðslu, það hljótum við öll að skilja. Þetta hefur leitt til þess, þ.e. meðaflavandamálið, að menn hafa lokað mjög stórum veiðisvæðum fyrir flotvörpuveiðum, m.a. svokölluðum Þórsbanka suðaustur af landinu en einnig öðrum svæðum. Margar af þeim lokunum hafa komið til vegna óska sjómanna sjálfra.

Það er líka búið að banna síldveiðar með flotvörpu, til að mynda þar sem togveiðar með fiskibotnvörpu eru bannaðar með reglugerðum. Menn hafa líka unnið að tilraunum með það að þróa notkun sérstakrar skilju sem yrði sett á ákveðinn stað í flotvörpunni sem mundi skilja út þann bolfisk sem hugsanlega slæddist með. Sá fiskur mundi þá sleppa lifandi og heill út úr veiðarfærinu. Þessar skiljur eru tiltölulega einfaldar. Það er töluverð reynsla við notkun þeirra í bolfiskveiðum. Ég þekki þessar skiljur mjög vel, hef unnið við rannsóknir á þeim og þarna er sennilega verið að vinna að hlutum sem mundu leysa þetta. Hér eru sem sagt komin enn ein rökin fyrir því að það sé hrein della að setja þessi lög. Þau eru óþörf. Menn munu leysa þetta með veiðitækni, þróun veiðarfæra.

Sjávarútvegsnefnd hefur hvergi fengið upplýst með óyggjandi hætti hvernig standa eigi að sýnatöku úr förmum uppsjávarveiðiskipa til að meta hversu mikill meðafli leynist hugsanlega um borð. Við vitum að það verður þó að gera vísindalegar kröfur, strangar, um slíka sýnatöku. Niðurstöðurnar verða að vera trúverðugar, sérstaklega þar sem um getur verið að ræða verulegar fjárhæðir sem leggjast þá á útgerð ef meðafli finnst í einhverjum mæli.

Það er ekki hægt að sjá að stjórnvöld hafi hugleitt hvernig eigi að framkvæma þetta eftirlit. Við fengum ekki á fund okkar í sjávarútvegsnefnd neina menn sem gátu svarað því af einhverju viti hvernig ætti að framkvæma eftirlitið, hvernig ætti að útfæra þessi lög. Enginn hefur getað svarað því, ekki viljað það eða hvernig sem það er.

Það má finna lýsingu á aðferðum við að meta svona meðafla í skýrslu sem Hafrannsóknastofnun gerði. Hún hefur verið að reyna að mæla þetta hjá kolmunnaskipunum og hún gaf út skýrslu yfir meðafla í kolmunnaveiðum árið 2003. Lýsinguna á þeim aðferðum er að finna þar, ég tók hana út og birti hana í þessu nefndaráliti. Þá kemur í ljós að þetta er mjög flókið mál. Það er mjög mikil vinna að gera þetta og það hlýtur að vera mjög dýrt. Það er verið að taka sýni úr aflanum þegar verið er að landa. Maður sér fyrir sér að hér þurfi a.m.k. nokkra menn til að geta framkvæmt þetta. Ef það á að gæta jafnræðis fæ ég ekki séð að komist verði hjá því að viðhafa svona aðferðir við löndun á hverjum einasta farmi uppsjávarskips sem berst á land til vinnslu í íslenskum fiskmjölsverksmiðjum ef þessi lög verða að veruleika. Það er hreinlega ekki hægt. Við getum ekki leyft okkur að taka út skip sem er að koma af veiðislóðinni að morgni, skoða farm þess með tilliti til meðafla, reikna síðan á þá útgerð einhvern kvóta ef meðafli finnst í þeim farmi og síðan bara hleypt skipi sem er að koma af sömu veiðislóð kannski örfáum klukkutímum seinna, jafnvel samtímis, í gegn án þess að þetta eftirlit fari líka fram um borð í því. Það er ekki hægt. Hér verðum við að gæta jafnræðis.

Við getum heldur ekki leyft okkur að taka farminn úr skipinu sem við höfum eftirlit með og reiknað hann yfir á hitt skipið, það er ekki hægt heldur, að fara að senda hinu skipinu einhvern tilbúinn reikning, skáldaðan reikning á grundvelli niðurstaðna úr einhverju öðru skipi, því að hér er um að ræða peninga og töluvert mikla peninga. Ég get ekki ímyndað mér að útgerðirnar muni finna sig í því að yfirvöld séu að senda þeim reikninga fyrir einhverjum ímynduðum meðafla sem kannski er ekki fyrir hendi. Þetta mun aldrei ganga, virðulegur forseti. Stjórnvöldum getur ekki orðið stætt á því að einungis sum skip sem lendi í eftirliti verði látin sæta því að útvega kvóta fyrir uppreiknuðum meðafla á meðan önnur skip, sem kannski eru að veiða á sama tíma, sleppa. Það er ekki hægt.

Hvernig ætla menn svo að kvótareikna meðafla Færeyinga sem veiða innan lögsögu okkar? Hvernig á að fara að því? Eiga þeir að skaffa kvóta, eiga þeir að skaffa bolfiskkvóta úr íslenskri lögsögu fyrir meðafla sem þeir fá í kolmunnaveiðum í íslenskri lögsögu? Í gildi er samkomulag við Færeyinga sem segir að Færeyingar megi veiða kolmunna í lögsögu Íslands. Einnig er í gildi samkomulag þar sem Færeyingar hafa kvóta í bolfiski en þeim kvóta er úthlutað á færeysk línuskip. Honum er ekki úthlutað á færeysk uppsjávarveiðiskip. Hvernig ætlum við að fara að því að leysa það?

Þetta á allt saman eftir að valda miklum deilum. Þetta á líka eftir að kosta mikla peninga eins og ég benti á. Greiða þarf mönnum laun fyrir hið tímafreka starf að fara yfir aflann. Þetta mun eflaust tefja fyrir löndun úr skipunum og eins og ég sagði áðan höfum við hvergi fengið upplýst um það hver eigi að borga þann eftirlitskostnað sem af öllu þessu mun hljótast.

Ég á ekki von á að ríkisvaldið, að hæstv. fjármálaráðherra sé reiðubúinn til að borga reikningana fyrir þetta eftirlit. Ég á frekar von á því að reynt verði að troða honum yfir á útgerðirnar, að þær fái reikningana, en ég er ekki viss um að þeim reikningum verði vel tekið af útgerðum þeirra skipa sem margar hverjar eru nú þegar farnar að glíma við slæma afkomu af þessum veiðum, olíuverð hefur hækkað, hráefnisverð hefur verið að lækka og þar fram eftir götunum. Ég veit líka að sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi eru fyrir löngu síðan búin að fá sig fullsödd af gífurlegum kostnaði vegna stöðugt meiri eftirlitsiðnaðar, sem þrífst í skjóli kvótalaga stjórnvalda, þ.e. Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ég hygg að fáir eða engir atvinnuvegir í landinu hafi verið skattlagðir jafnhrikalega af neinni ríkisstjórn og þeirri sem nú situr, hér er ég að tala um sjávarútveginn.

Við getum fundið fleiri meinbugi á þessu vonda frumvarpi. Mörg skip sem landa kolmunnaförmum hér á landi veiða hugsanlega í íslenskri lögsögu og landa síðan kolmunnanum til vinnslu í Færeyjum. Þá verðum við að senda eftirlitsmenn til Færeyja til að fara yfir farminn hjá þeim skipum, hver á að borga reikninginn fyrir það? Því hefur hvergi verið svarað.

Hér er því mikið af stórum spurningum sem ekki hafa fengist nein svör við og er ósvarað. Þetta mál er svo illa undirbúið á allan hátt, illa úthugsað, vanhugsað, vanreifað, að það er hreinlega til vansa. Mér finnst það ekki boðlegt og ég skil í raun og veru ekki hvers vegna í ósköpunum það þarf að koma þessum lögum í gegn, láta þau taka gildi núna á miðju sumri eftir að vertíðin er hafin, hvað í ósköpunum það er sem gerir það að verkum að það liggi svona mikið á.

Hitt skal þó vera alveg víst, að ég mun halda áfram að senda fyrirspurnir mínar til hæstv. sjávarútvegsráðherra um meðafla hjá þessum skipum. Ég mun fylgjast með því hvort hvert einasta skip sem fiskar með flotvörpu í landhelgi Íslands árið um kring verði ekki látið sæta þessu eftirliti, og það væri enn og aftur gaman að fá að heyra hv. formann sjávarútvegsnefndar svara þeirri spurningu: Hver á að borga reikninginn?