131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[18:38]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er nú skaði að hafa ekki dálítið rýmri tíma til að fara yfir þessi orkumál núna á lokasprettinum þegar hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, er loksins viðstödd umræðu um þessi mál, en á það hefur verulega skort að undanförnu eins og kunnugt er. Því miður urðu menn að sæta því að fara í gegnum umræður um þessi stóru mál án þess að hæstv. ráðherra væri hér til svara. Það er þeim mun ríkari ástæða til að hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins, Valgerður Sverrisdóttir, svari til um þessa hluti áður en Alþingi lýkur störfum, þar sem yfirlýsingar hennar, fullyrðingar og svardagar hér frá því fyrir áramót um afleiðingar þeirra breytinga í raforkumálum sem hæstv. ráðherra hefur barist fyrir með bros á vör, liggja núna fyrir í formi stórhækkaðs raforkuverðs í landinu.

Það nægir hæstv. iðnaðarráðherra greinilega ekki að framkalla þá hækkun rafmagnsverðs sem markaðsvæðingarpakkinn hefur nú sannarlega gert, heldur er því fylgt hér eftir með frumvarpi um að skattleggja nú orkufyrirtæki, þessa veitustarfsemi, þá almannaþjónustu sem að uppistöðu til er í eigu opinberra aðila og þar af verulegu leyti sveitarfélaga. Þetta er gert gegn hörðum mótmælum sveitarfélaganna, Neytendasamtakanna, stéttarfélaga og yfirleitt flestallra annarra en þá ríkisstjórnarinnar og kannski Verslunarráðsins.

Hver eru svör hæstv. iðnaðarráðherra nú til þeirra sem hafa verið að fá rafmagnsreikninga á undanförnum mánuðum með tuga prósenta hækkun á töxtum, t.d. til að hita hús, stór hús á köldum svæðum? Ætlar hæstv. ráðherra að draga formlega til baka fullyrðingar sínar frá haustmissirinu um að þetta muni ekki leiða til neinnar hækkunar raforkuverðs? Er hæstv. ráðherra manneskja til að viðurkenna að þar var ekki farið með rétt mál? Alþingi var í raun og veru blekkt þegar þau mál voru afgreidd hér og nú blasir hitt við.

Auðvitað lá það ljóst fyrir allan tímann að þessar breytingar mundu hafa í för með sér umtalsverðan kostnaðarauka. Þeir sem best þekktu til, og vitna ég þá t.d. í forstjóra Landsvirkjunar, hann sagði á ráðstefnu á Grand Hótel að það væru þrjár, fjórar veigamiklar ástæður fyrir því að raforkuverðið í landinu hlyti auðvitað að hækka. Það væri uppskiptakostnaður hjá fyrirtækjunum, það væri eftirlitskostnaður sem kæmi til með að stóraukast og það væri arðsemiskrafan, arðurinn sem nú á að fara að taka út úr þessari starfsemi.

Það er ekki eins og hæstv. ráðherra hafi mikið lært eða rekið sig eitthvað á. Nei, nei, næstu skilaboð frá hæstv. ráðherra til Alþingis eru þetta frumvarp til laga um skattlagningu orkufyrirtækja. Og hver er ástæðan til þess að fara að skattleggja þessi fyrirtæki eins og nú stendur til, ekki bara raforkuþáttinn heldur líka heita vatnið, hitaveiturnar? Þetta leiðir að sjálfsögðu til hækkunar. Þennan kostnað geta engir borið að lokum aðrir en viðskiptavinir fyrirtækjanna. Það er misskilningur hjá hæstv. fjármálaráðherra að það komi bara fjármunir af himnum til að standa undir þessum greiðslum, eins og skilja mátti á honum hér um daginn.

Og það sem er hroðalegast í sambandi við þessa skattlagningu orkufyrirtækjanna er að það er aðeins lítill hluti viðskiptavina orkufyrirtækjanna sem kemur til með að bera allar byrðarnar, þ.e. almenni notendamarkaðurinn, vegna þess að stóriðjan sem kaupir obbann af rafmagninu er varin með langtímasamningum þar sem ekki er gert ráð fyrir neinum skattgreiðslum 20 ár fram í tímann eða svo. Þetta liggur fyrir í umsögnum fyrirtækjanna sem að undanförnu hafa verið að semja um raforkusölu. Þetta segir Orkuveita Reykjavíkur, þetta segir Hitaveita Suðurnesja og auðvitað gildir þetta líka um Landsvirkjun.

Einnig væri fróðlegt að heyra hvort hæstv. ráðherra er enn sama sinnis að smiðshöggið í þessum efnum eigi svo að vera sameining Rafmagnsveitna ríkisins, Orkubús Vestfjarða og Landsvirkjunar í eitt fyrirtæki til þess að ná stærri hluta notendamarkaðarins inn á bak við vefinn hjá Landsvirkjun og koma þessum kostnaðarreikningum af stóriðjustefnunni örugglega yfir á herðar fleiri viðskiptavina orkufyrirtækjanna. Það er þá kannski eitthvað sem í vændum er frá hæstv. ráðherra næsta haust — eða hvað?

Ég held að hæstv. ráðherra skuldi þinginu og almenningi, sérstaklega fólki á landsbyggðinni sem kyndir hús sín með rafmagni og býr á svokölluðum köldum svæðum, skýringar á því sem hér hefur gerst. Það er ekki bara nóg að reyna að drepa þessu á dreif eins og gert hefur verið að undanförnu, fyrst með því að fullyrða að það verði engar hækkanir og þegar þær svo blasa við að fara þá að þvæla um það að þetta sé nú kannski eitthvað tilfallandi, raforkureikningarnir séu flóknir aflestrar o.s.frv. Það er náttúrlega niðurstöðutalan sem þar gildir og ég hef séð meira en nóg af dæmum og sýnishornum um hvernig þetta er að koma út, en afar fá dæmi heyrt nefnd um einhverjar lækkanir. (Gripið fram í.)

Það er alveg á hreinu, frú forseti, að við erum ekki að eigast við hér í síðasta sinn um þessi orkumál eins og allt er í pottinn búið. Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur stjórnarflokkunum og sérstaklega Framsóknarflokksins fyrir það sem hér hefur verið að gerast í þessum orkumálum. Það er stórkostlega alvarlegt sem er að gerast í þessum málaflokki á Íslandi um þessar mundir og er almenningi ekki til hagsbóta nema síður sé, og ég tel að það gangi ekki að hæstv. iðnaðarráðherra sé með endalaus undanbrögð og svari út í hött þegar staðreyndirnar liggja á borðinu. Ég trúi að ég mæli þar fyrir munn margra annarra en okkar þingmanna í stjórnarandstöðunni. Ég trúi að framsóknarmenn hafi fengið að heyra það hjá einum og einum manni úti á landsbyggðinni undanfarnar vikur og undanfarna mánuði það sem menn eru að upplifa á eigin skinni í þessum efnum.