131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[18:49]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Okkur er tjáð að nú standi yfir tilraunaár. Svakalega erum við heppin að ráðherra vinnur ekki á bráðamóttöku sem læknir.

Virðulegi forseti. Mér er spurn hvernig hæstv. ráðherra ætlar að lagfæra þann skaða sem þegar hefur orðið, sem almenningur hefur verið að borga fyrir. Ég hef ekki orðið var við að nokkur einasta kjarabót hafi orðið í kjölfar þess að orka hafi lækkað til einhverra fyrirtækja úti á landsbyggðinni. Hvar hefur sá kjaraauki komið til fólksins sem borgar miklu hærri húshitunarreikninga, sérstaklega á köldum svæðum?

Það er tilkynnt að það eigi að endurskoða þetta mál og nú sé tilraunaár. Hvernig á þá að borga til baka þann skaða sem þegar hefur orðið? (SJS: Senda Framsókn reikninginn.)

Ég hef leyft mér, hæstv. forseti, að kalla þetta axarskaft, axarskaftssmíði, alla þessa löggjöf eins og hún hefur verið og þennan feril, að setja fyrst löggjöf sem menn vita að er ómöguleg í stað þess að fresta henni og sjá hvað kæmi úr framreikningum svo menn áttuðu sig á því hvað þetta þýddi. Nei, það átti að höggva fyrst og spyrja svo. Það er aðferðin, vitandi vits um að kostnaðurinn lendi nánast allur á almenningi, því miður. Þetta lendir harðast á þeim sem búa á köldum svæðum og nota raforku til húshitunar. Þar kemur þetta harðast niður. Það sýna einfaldlega þeir reikningar sem maður hefur fengið senda frá fólki, að almenningur lendir í skakkaföllunum við þetta.

Ég endurtek að ég veit ekki til þess að eitt einasta fyrirtæki hafi hækkað kaup við fólk fyrir það að orkureikningarnir hafi lækkað. Þar hefur ekkert hefur komið á móti. Hér er eingöngu um álögur að ræða án þess að tekjuauki komi á móti, því miður.

Með skattlagningu orkufyrirtækjanna er ýtt undir það að í framtíðinni verði enn frekari hækkanir á orkuverði. Það verður ekki tekið af stóriðjunni. Hún er með fasta samninga þannig að hækkanirnar lenda eins og áður á almenningi þessa lands og auðvitað verst á þeim sem mesta orku nota, sem eru á köldustu svæðunum og þurfa að kynda hús sín með raforku.

Mér er spurn, hæstv. forseti, hvort verið sé að hanna rök fyrir því að sameina þurfi öll orkufyrirtækin í kjölfar þessa máls? Ef orkufyrirtækin eru misjafnlega skuldsett, sem þau eru, þá hefur hv. þm. Birkir J. Jónsson lýst því yfir að fyrirtækin mundu hvort sem er ekki borga skatta á næstu árum, a.m.k. ekki þau skuldsettu, sem verða í miklum framkvæmdum. Önnur fyrirtæki eru á hinn bóginn ekkert ofboðslega skuldsett og til þess að koma jafnræði á mun sennilega þykja nauðsynlegt að sameina allan pakkann. Þá eru komin ný rök í þetta mál. Það er sem sagt búið að búa til rök fyrir því að sameina öll orkufyrirtækin þannig að skuldirnar dreifist jafnt á alla íbúa landsins. Þegar fyrirtækin fara að borga skatt þá kæmu þær kvaðir jafnt á alla, þ.e. ef orkufyrirtækin láta það út í verðlagið sem allar líkur eru á, miðað við þær umsagnir sem hafa borist um þetta mál varðandi skattlagningu orkufyrirtækja.

Þannig sitja menn allt í einu, hæstv. forseti, uppi með að þetta hafi valdið almenningi í landinu skaða. Það er ekki hlutverk okkar á Alþingi að setja lög sem valda almenningi í landinu skaða. Við eigum ekki að setja slík lög, alla vega ekki að óskoðuðu máli. Ef slík lög yrðu sett þá væri lágmark að hafa langan aðlögunartíma og reyna að átta sig á þeim vandræðum sem fylgja þeim í stað þess að höggva fyrst og spyrja svo, hæstv. ráðherra. Mér finnst þetta eiginlega mergurinn málsins. Menn gera tilraunir, eins og hæstv. ráðherra segir, og afleiðingarnar koma niður á fólkinu. Ég vil fá svör við því, hæstv. ráðherra. Ef það er litið á þetta sem tilraun, hvernig á þá að borga þeim til baka sem lenda í mestum kostnaðinum? Ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að orkureikningarnir verði skoðaðir heilt ár aftur í tímann og mismunurinn greiddur til baka til fólks? Eða er þetta bara allt í lagi? Má gera svona tilraun? Þetta eru axarsköft, alveg endalaus axarsköft.

Ég undrast, hæstv. forseti, að við skyldum lenda í þessu fari. Við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lögðum til að raforkulögunum væri frestað, þ.e. gildistöku þeirra þótt lögin yrðu sett, þannig að mönnum gæfist tækifæri til að átta sig á afleiðingunum af þeim. Menn gátu ekki horft á það sem skynsamlega niðurstöðu. Nei, þeir þurftu komast inn í tilraunaárið, höggva fyrst og spyrja svo. Það er niðurstaðan. Er nema von að ég hafi kallað ráðherrann axarskaftasmið sem þurfi á mörgum axarsköftum að halda til að koma þessu verki í framkvæmd?