131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[18:58]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um neinar endurgreiðslur í þessu sambandi, enda er ekki ljóst hvort á slíku þarf að halda þegar heildarreikningur liggur fyrir. Það er ekkert að marka þá reikninga sem birtust nú eftir áramótin. Ég veit að margir hafa glaðst yfir reikningi númer tvö á þessu ári sem hefur verið allt annars eðlis.

Ég sé og heyri að hv. þingmenn hefðu farið allt öðruvísi í þetta ef þeir hefðu haft völdin. Það getur vel verið að þeir hefðu notað betri aðferðir en ríkisstjórnin. En ég tel að miðað við allt, miðað við hve mikil andstaða var við þetta mál, bæði á hv. Alþingi, hjá orkufyrirtækjunum og öðrum, þá finnst mér vel af sér vikið að ná fram þessum breytingum. Ég er sannfærð um að þær munu leiða af sér betra fyrirkomulag þegar á heildina er litið.