131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[19:09]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp um meðafla sem aðallega snýr að veiði á kolmunna og þeim meðafla sem kemur við kolmunnaveiðar. Reyndar kemur meðafli í mörg veiðarfæri og við margs konar veiðar, hann kemur með síld, loðnu o.s.frv. Við höfum lengst af hér á landi verið með aflamark í botnfiski og þar hefur stífasta eftirlitið verið, að fylgjast með hvort komi tittinum meira eða minna af þorski eða öðrum botnfiski í veiðarfærin og þar hafa verið ströngustu viðurlögin og harðast brugðist við í gegnum tíðina.

Ég ætla ekki að hafa mjög langt mál, það væri alveg ástæða til þess, en ég hyggst gera það síðar í blaðagrein eða einhverju til að rekja þetta mál nánar. Það er hins vegar alveg þess virði og réttlátt að vekja athygli á því að þegar slíkar reglur eru settar eins og við erum að setja núna eru þær yfirleitt alltaf settar og hafa alltaf verið settar miðað við upphaf fiskveiðiárs. Það eru mjög sjaldan settar reglur sem snúa að kvótabundnum veiðum á miðju veiðitímabili.

Kolmunnaveiðin miðast ekki við fiskveiðiáramót heldur við venjuleg áramót og kolmunnaaflinn er afli sem við skiptum sjálfir og er ekki samkomulag um magnveiðar á honum í Norður-Atlantshafi. Veiðisvæðið er geysilega stórt, það er allt frá Írlandi og upp í bresku lögsöguna, nyrst í henni, í færeysku lögsögunni, í Síldarsmugunni, inn í okkar lögsögu í vaxandi mæli á undanförnum árum og inn í norsku lögsöguna svo dæmi sé tekið og alla leið upp fyrir Jan Mayen. Það er því farið vítt og breitt um Norður-Atlantshafið og það er m.a. ein ástæða þess að erfitt er að vera með kvótareikning sem miðast bara við íslensku lögsöguna því að í sömu veiðiferð veiða íslensk skip bæði innan og utan lögsögunnar og hvernig á þá að reikna meðaflann? Þetta er eitt af þeim atriðum sem menn hefðu mátt huga betur að við setningu þessara laga.

Í öðru lagi finnst mér mjög óskynsamlegt að taka þessa reglu upp á miðju veiðitímabili, þ.e. 1. júní nk., þegar hluti af skipunum er búinn að veiða kvótaheimildir sínar á árinu eða langt kominn með þær en aðrir eiga þær kannski allar eftir. Meðaflareglan kemur því mjög misjafnlega út á útgerð skipanna. Ég hefði talið eðlilegt þegar slík regla væri sett, ef menn ætla að setja hana, að hún gilti frá 1. janúar nk., þannig að allt veiðitímabil ársins væri eftir og allir sætu við sama borð, vegna þess að skipstjórar geta ákveðið að hegða sér mjög misjafnlega eftir því hvaða reglu þeir hafa fyrir framan sig. Við getum t.d. hugsað okkur að það hafi verið tilhneiging íslenskra skipstjóra að veiða meira af aflanum utan íslenskrar lögsögu vegna þessa kvótareiknings en ella. Þessar reglur kunna að leiða til þess að Íslendingar sæki meira í færeysku lögsöguna, veiði meira af sínum afla þar. Þar þarf engan meðafla. Það þarf heldur engan meðafla við Írland. Þetta getur þýtt dýrari sókn fyrir okkur út fyrir lögsöguna okkar, vegna þess að engin kvöð er um meðafla. Hún kemur aðeins til þegar við erum komnir inn í lögsöguna.

Þetta segi ég til að benda á hvernig viðbrögðin verða því að við þurfum ævinlega, þegar við setjum lög og reglur, að hugsa um hvernig sá bregst við sem á að vinna eftir reglunum. Hann hefur eitthvert val og það val getur leitt til þess að sókn okkar í kolmunnann verði miklu dýrari vegna þess að menn treysti sér ekki til þess að veiða eins mikið innan íslensku lögsögunnar vegna áhættu að lenda í meðaflanum.

Besta leiðin til að losna við meðaflann og sú æskilegasta væri auðvitað að setja skilju um borð, í veiðarfærið sjálft, þannig að meðaflinn, þorskur, ufsi og karfi sem kemur með sem meðafli við kolmunnaveiðar komist aldrei aftur í pokann á vörpunni heldur skiljist frá við veiðarnar sjálfar og fiskurinn fari lifandi út úr veiðarfærinu. Þetta er sama aðferð og er notuð við rækjuveiðar. Þar er sett skilja í rækjutrollið til þess að skilja út allan bolfisk þannig að menn fái ekkert nema rækju. Þetta var gert fyrir nokkuð mörgum árum. Þessar rannsóknir þyrfti auðvitað efla mjög og reyna að ná þessum árangri því að þetta er skilvirkasta leiðin til að við séum ekki að misnota þetta veiðarfæri við að drepa bolfisk og heldur ekki að veiða bolfisk sem er svo skemmt hráefni þegar hann kemur um borð í skipin vegna þess bæði hve lengi er togað og eins hvernig aflinn er tekinn um borð.

Að lokum, virðulegur forseti, er rétt að vekja athygli á því að í lögum um stjórn fiskveiða eru fjöldamörg atriði sem segja fyrir um hvernig með alls konar afla skuli farið. Í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar segir, með leyfi forseta:

„Komi afli í veiðarfæri fiskiskips sem er selbitinn eða skemmdur á annan hátt og ekki er unnt að komast hjá við tilteknar veiðar er ráðherra heimilt að ákveða að hann reiknist ekki til aflamarks skipsins.“ — Þetta er ein reglan, þá er meðaflinn ekki kvótareiknaður. — „Ráðherra setur frekari reglur um framkvæmd þessarar málsgreinar, þar á meðal um leyfilega nýtingu þessa afla.“

Í lögum um stjórn fiskveiða er regla sem segir að helmingur undirmálsfisks, af tilteknum fiski af tiltekinni stærð, sé utan kvóta. Þar er helmingur af aflanum reiknaður til aflamarks. Það er ein reglan. Síðan segir að 16% af fiski sem veiddur er á línu reiknist ekki til kvóta ef beitt er í landi. Það er smábátareglan svokölluð sem sett var. Þar er líka meðafli sem ekki þarf að reikna kvóta fyrir. Reglurnar eru fleiri, hæstv. forseti. Einnig er til regla um breytingar á afla sem má veiða af einni tegund umfram aðra o.s.frv. Síðan má veiða fram fyrir sig, sem kallað er, það má veiða meira innan ársins og færa yfir á næsta ár. Það er hluti af reglugerðarverkinu.

Síðast en ekki síst ætla ég að nefna að ævinlega þegar kvóti hefur verið settur á skip, á grundvelli veiðireynslu, hefur það verið á grundvelli veiðireynslunnar sem skipin höfðu, t.d. þrjú ár aftur í tímann. Það er mjög algeng regla. Það var gert í kolmunnanum, kvótanum var úthlutað á veiðireynslu þriggja síðustu ára. En þá spyr ég: Var enginn meðafli á þeim þremur árum sem kvótanum var úthlutað? Ég meina, af hverju fengu skipin sem voru í kolmunnaveiðum ekki úthlutað einhverjum meðafla út á veiðireynslu sína, á þeim þremur árum sem kvótareynslan er byggð á? Nei, nú á að reikna meðaflann en þeir fengu ekki úthlutað aflamarki í honum á tilraunaveiðiárunum. Þetta er ein af spurningunum sem við hljótum að velta fyrir okkur.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegur forseti. Ég vil bara draga það fram að í lögum um stjórn fiskveiða er fjöldi ákvæða um alls konar tilfærslur á aflaheimildum, smáfisk utan kvóta og o.s.frv. Þetta held ég að menn þyrftu að skoða nokkuð vandlega. Aðalmálið finnst mér að menn setji þá alla vega regluna, úr því að þeir ætla að setja þessa reglu, í upphafi árs en ekki á miðju fiskveiðiári þannig að allir njóti jafnræðis. Þeir sem búnir eru að veiða heimildir sínar þurfa ekki að hafa neinn meðafla, þeir sem munu veiða eftir 1. júní þurfa að hafa meðafla. Þetta er bara bull. Við höfum yfirleitt alltaf sett svona reglur í upphafi fiskveiðiárs eða eins og núna, af því að við erum með almanaksár, að þær taki gildi 1. janúar. Þá sætu allir við sama borð á næsta ári.

Ég segi enn og aftur, og ætla að láta það verða mín síðustu orð: Bestum árangri mundum við ná við þessar flottrollsveiðar með því að setja skilju í veiðarfærin og losna við aflann sem við viljum ekki fá um borð í þessi skip úr veiðarfærinu lifandi.