131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[20:19]

Frsm. minni hluta umhvn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í tilefni orða hv. þingmanns um það að leiðir hafi skilið milli okkar í stjórnarandstöðunni þar sem ég hafi viljað að Skipulagsstofnun tæki áfram pólitískar ákvarðanir um framkvæmdir vil ég leiðrétta það. Það er alger misskilningur. Það er ekkert í breytingartillögum mínum sem gerir ráð fyrir því að Skipulagsstofnun kveði áfram upp úrskurð, ekki neitt. Það sem ég hef hins vegar varað við og vakið athygli á er sú hætta sem er fólgin í því að leyfisveitandanum verður ekki gert það, samkvæmt þessum hugmyndum, að fylgja mótvægisaðgerðunum sem álit Skipulagsstofnunar byggir á. Það verður ekkert í þessu ferli sem tryggir það að nauðsynlegar mótvægisaðgerðir að mati Skipulagsstofnunar gangi eftir af því að leyfisveitandinn er ekki lengur bundinn af áliti Skipulagsstofnunar. Hann má bara fara sínu fram og með því að rökstyðja leyfisveitinguna sína getur hann sagt: Nei, við höfum ekki peninga til að fara út í þetta eða hitt sem Skipulagsstofnun er að leggja til, eða hvaða rök sem hann síðan finnur til.

Hugmyndirnar að mótvægisaðgerðunum geta allar dottið dauðar upp fyrir þannig að þar með er að mínu mati farið að fara gegn meginreglum umhverfisréttar. Þar með er farið að fara gegn megintilgangi skipulagslaga um verndun umhverfisins, gegn náttúruverndarlögum. Það er sú hætta sem er fólgin í þeirri breytingu sem hér er lögð til og ekkert í orðanna hljóðan í frumvarpinu eða í breytingartillögum meiri hlutans kemur í veg fyrir að þessi hætta verði að veruleika strax.