131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[20:40]

Frsm. minni hluta umhvn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni. Ég held ekki að við séum að deila. Orðaskiptin milli okkar hér og nú eru svipuð þeim orðaskiptum sem við áttum í nefndinni. Mér heyrist hv. þingmaður enn vera að tala um sama hlut og ég er að tala um þannig að ég lít enn svo á að Skipulagsstofnun eigi að fjalla um umsagnirnar og athugasemdirnar áður en hún sendir þær til framkvæmdaraðila því öðruvísi getur hún ekki tekið mið af þeim í einhverjum hugmyndum um mótvægisaðgerðir.

Varðandi síðan hitt að ráðherra hafi verið beygður þá vil ég eingöngu segja það að ég hafði orð á því að umhverfisráðherra hefði komið með metnaðarfullar tillögur í frumvarpinu. Þrjár af þeim er hún send til baka með og mér þótti það miður að meiri hluti umhverfisnefndar skyldi ekki styðja þann metnað sem mér þótti í ákveðnum tillögum umhverfisráðherra og fara að þeim heldur fara aftur í gamla farið. Ég stend svo sem við gagnrýni mína í þeim efnum.