131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Lokafjárlög 2003.

441. mál
[21:08]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2003. Eins og fyrr fjallaði nefndin um málið í samráði við fjármálaráðuneytið og Ríkisendurskoðun. Ég vil koma á framfæri örfáum orðum úr nefndaráliti.

Ríkisendurskoðun telur að úrbóta sé þörf varðandi framkvæmd fjárlaga, gerð fjáraukalaga og lokafjárlaga og að tryggja þurfi betur samræmi á milli framsetningar ríkisreiknings og fjárlaga. Fjármálaráðuneyti tók undir ábendingar Ríkisendurskoðunar um að óeðlilegt sé að úthluta af safnliðum eftir að reikningsári er lokið og að gera eigi þá kröfu að fjárheimildir stofnana liggi fyrir eins fljótt og auðið er.

Að öðru leyti, virðulegur forseti, gerir meiri hlutinn tillögu um nokkrar breytingar þ.e. 21 breytingu við frumvarpið og kemur það fram í þingskjali 1199. Ég vísa í það þingskjal og ætla ekki að gera sérstaklega grein fyrir þeim breytingartillögum, en undir þetta álit meiri hlutans skrifa hv. þingmenn Magnús Stefánsson, Drífa Hjartardóttir, Einar Oddur Kristjánsson, Ásta Möller, Bjarni Benediktsson og Hjálmar Árnason.

Eins og um lokafjárlögin fyrir árið 2002 hefur í umfjöllun um málið komið fram ákveðið misræmi milli ríkisreiknings og lokafjárlaga frumvarpsins og mun ég leggja fram breytingartillögu um þetta frumvarp fyrir 3. umr., þ.e. breytingartillögu við 4. gr. á sama hátt og á við um lokafjárlög ársins 2002. Unnið hefur verið að því að samræma þessa hluti í þeirri vinnu sem hefur farið fram núna á síðustu tveimur árum og við væntum þess og gerum ráð fyrir því með þessu öllu saman að upphafsstaða ársins ætti að vera í réttu horfi, þ.e. upphafsstaða ríkisreiknings 1. janúar 2004 og lokafjárlög 2003 og þar með mun okkur takast að stemma þessa hluti af þannig að umfjöllun um þessi mál ætti að vera með eðlilegum hætti eins og vera ber samkvæmt fjárreiðulögum hér eftir.