131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Lokafjárlög 2003.

441. mál
[21:11]

Frsm. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta fjárlaganefndar um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2003. Rétt er að geta þess að Guðjón Arnar Kristjánsson, áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd, er samþykkur þessu nefndaráliti en undir það rita auk mín hv. þingmenn Anna Kristín Gunnarsdóttir, Jón Gunnarsson, Helgi Hjörvar og Jón Bjarnason.

Einnig er rétt að bæta við þá umræðu sem hér átti sér stað varðandi lokafjárlög fyrir árið 2002 að nokkur umræða hefur orðið um hvort samþykkja eigi lokafjárlög hvers árs á undan útgáfu ríkisreiknings eða eftir að hann hefur verið gefinn út. Af 45. gr. fjárreiðulaganna má ráða að þetta skuli gerast samtímis og að fullt samræmi eigi að vera á milli lokafjárlaga og ríkisreiknings. Um þetta þarf skýrar reglur og verklag sem tryggir betri vinnubrögð í framtíðinni við gerð lokafjárlaga. Minni hlutinn telur að fjárlaganefnd eigi að hafa frumkvæði varðandi þetta ferli og leggja vinnu í að samræma ólík sjónarmið. Ljóst er að nýju fjárreiðulögin hafa ekki tryggt það að þetta hafi gerst með þessum hætti og margt sem bendir til að það sé í raun ógjörningur. Því er eðlilegt að fjárlaganefnd velti fyrir sér hvort ekki sé kominn tími til að endurskoða fjárreiðulögin og teljum við eðlilegt að fjárlaganefndin hafi frumkvæði að slíku.

Það sama er um þetta frumvarp að segja og kom fram við umræðu um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2002 að ekki er fullt samræmi milli ríkisreiknings og lokafjárlaga og sú athugasemd kemur fram í nefndaráliti okkar og þess vegna er það fagnaðarefni að hv. þm. Magnús Stefánsson hefur boðað breytingartillögu til að koma þessu í fullt samræmi við það sem gert var vegna áranna 2000 og 2001.

Einnig er fagnaðarefni að nú bendir allt til þess að við munum í haust fá lokafjárlög fyrir árið 2004, þ.e. um svipað leyti og við fáum frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2005 og frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2006. Þá á grunnur allra stofnana að vera tryggur þannig að menn eigi að geta byggt þessi frumvörp á réttum grunni og mun það væntanlega og vonandi orsaka það að við fáum betri fjárlög fyrir árið 2006 heldur en við höfum haft undanfarin ár.

Frú forseti. Minni hlutinn mun að sjálfsögðu sitja hjá við afgreiðslu þessara frumvarpa beggja af þeirri einföldu ástæðu að þetta er allt saman liðið og búið og er að sjálfsögðu á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna og við munum þess vegna eins og ég sagði áðan sitja hjá við afgreiðslu þeirra.