131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[21:52]

Guðjón Hjörleifsson (S):

Virðulegi forseti. Ég gerði fyrirvara í nefndaráliti vegna þeirra breytinga í 7. gr. að breyta lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð í þágu rannsókna opinberra mála og almannaöryggis, úr einu ári í hálft ár. Ég tel níu mánuði ásættanlega. Það kom fram hjá fulltrúum ríkislögreglustjóra að oft koma mál seint upp sem gera það að verkum að komið hefur fyrir að búið er að eyða mikilvægum gögnum sem annars hefðu nýst til að ná í þá aðila sem fremja glæpi og þeir munu jafnvel sleppa vegna þessara mála.

Það kom einnig fram að börn sem verða fyrir áreiti barnaníðinga komu oft ekki til yfirvalda fyrr en eftir 5–7 mánuði og þurfa oft mikinn kjark til að opinbera það áreiti sem þau hafa orðið fyrir. Þetta eru áreiti í síma- og tölvumálum. Því tel ég sex mánuðina of skamman tíma með tilliti til almannaöryggis. Þetta snýst ekki um einhverjar njósnir hins almenna borgara, þetta snýst um að ná glæpamönnum.

Mér finnst einnig umsögn Persónuverndar vera of hörð. Ég tel það meiri persónuvernd að ná í aðila sem eru brotlegir. Það þarf að skapa lögreglu svigrúm til þess. Það á vernda okkur borgarana (Forseti hringir.) til að þessir aðilar fái ekki að ganga lausir.