131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[22:33]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé ágætt að einn og einn maður geri af og til grein fyrir atkvæði sínu svo að hæstv. forseti geti dregið andann á meðan. Hæstv. forseti drífur hlutina áfram af miklum myndarskap.

Hér er að koma til lokaafgreiðslu frumvarp sem er hluti af miklum pakka mála sem hæstv. ríkisstjórn hefur undir forustu iðnaðarráðherra borið fram á þinginu í vetur. Þar fór fyrst markaðsvæðing raforkufyrirtækjanna og nú siglir í kjölfarið skattlagning bæði raforkufyrirtækja og hitaveitna. Þetta brölt í hæstv. ríkisstjórn, þessi nýfrjálshyggjumarkaðsvæðingarleiðangur, hefur þegar leitt til stórhækkaðs raforkuverðs í landinu. Þessu á svo að fylgja eftir með skattlagningu fyrirtækjanna í óþökk eigenda þeirra, sem eru ekki síst sveitarfélögin, í andstöðu við samtök neytenda, verkalýðshreyfingu og yfirleitt flesta umsagnaraðila um málið nema ríkisstjórnina sjálfa og einstaka stuðningsmenn hennar eins og Verslunarráðið.

Það gefur augaleið að þennan skatt, að svo miklu leyti sem hann verður þá greiddur á komandi tímum, bera engir aðrir en almennir notendur, almennir viðskiptavinir þessara fyrirtækja. Svo þrælslega er hér um hnútana búið að stóriðjan (Gripið fram í: … skattamálum.) sem kaupir obbann af rafmagninu er varin með langtímasamningum fyrir því að leggja sitt af mörkum. Byrðarnar lenda á almennum viðskiptavinum fyrirtækjanna. Þessar æfingar eru þegar orðnar almenningi í landinu dýrar. Rafmagnsverðið hefur stórhækkað, það liggur fyrir og er þó ekki allt búið enn því að á næstu árum munu þessar breytingar leiða til frekari hækkana — það liggur fyrir — þegar arðsemiskrafan hækkar í áföngum og þegar byrðin af skattgreiðslunum kemur til sögunnar.

Þeir sem eru að fá rafmagnsreikningana senda inn um lúgurnar hjá sér þessar vikurnar og mánuðina vita hvað verið er að tala um. Það er aðeins eitt fyrir óánægða raforkukaupendur í landinu að gera við þá reikninga, (Gripið fram í: Borga þá.) það er að senda þá á rétt heimilisfang, til Framsóknarflokksins. Þar eru þeir best komnir.