131. löggjafarþing — 134. fundur,  11. maí 2005.

Þingfrestun.

[23:16]

Forseti (Halldór Blöndal):

Háttvirtir alþingismenn. Senn lýkur störfum þessa þings og er það samkvæmt starfsáætlun sem gerð var fyrir upphaf þings í haust.

Á þessu þingi hefur verið afgreitt sem lög 101 frumvarp, og 19 þingsályktanir voru samþykktar. Sá fjöldi er nokkru minni en venja er á reglulegum löggjafarþingum.

Ég vil greina hv. alþingismönnum frá því við þetta tækifæri að í þinghléi í sumar verður haldið áfram endurbótum á Alþingishúsinu. Er það fjórði og síðasti áfangi endurbóta sem ráðist er í innan húss. Eftir er þá að ljúka viðgerð á þaki og tveimur útveggjum. Í framkvæmdunum í sumar er áformað að koma fyrir lyftu milli 2. og 3. hæðar til að tryggja eðlilegan aðgang fatlaðra að þingpöllum. Þá verður lokið frágangi á gólfum í herbergjum 1. hæðar og 3. hæðar. Jafnframt verða allar raf- og vatnslagnir endurnýjaðar á 3. og 4. hæð. Allmikil röskun mun fylgja þessum framkvæmdum og verður þinghúsið lokað meðan á þeim stendur. Framkvæmdir hefjast í lok þessa mánaðar og er áætlað að þeim ljúki undir lok ágústmánaðar.

Stefnt er að því að húsgögn á 1. og 2. hæð verði endurnýjuð að undanskildum þingsalnum og hefur íslenskum húsgagnahönnuðum verið falið að gera tillögur um gerð þeirra.

Ég vil geta þess að hinn 19. júní nk. verða 90 ár liðin frá því að Danakonungur staðfesti lög sem veittu konum rétt til að kjósa og bjóða sig fram til Alþingis. Þessara tímamóta verður m.a. minnst með málþingi um kosningarrétt kvenna og áhrif hans sem haldið verður í hátíðarsal Háskóla Íslands 20. maí nk.

Við lok þinghaldsins vil ég fyrir hönd okkar forsetanna þakka þingmönnum samstarfið á þessu þingi. Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis þakka ég alla aðstoð. Ég óska utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og vænti þess að við hittumst öll heil á ný er Alþingi kemur saman í haust.