132. löggjafarþing — þingsetningarfundur

Afsal þingmennsku.

[14:33]
Hlusta

Aldursforseti (Halldór Ásgrímsson):

Borist hafa þrjú bréf um afsal þingmennsku.

Hið fyrsta er frá 3. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður, Bryndísi Hlöðversdóttur, dagsett 26. júlí sl. og hljóðar svo:

„Þar sem ég hef verið ráðin deildarforseti lagadeildar Viðskiptaháskólans á Bifröst afsala ég mér þingmennsku frá og með 1. ágúst 2005.

Bryndís Hlöðversdóttir, 3. þm. Reykv. n.“

Við þingmennskuafsal Bryndísar Hlöðversdóttur tekur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fast sæti á Alþingi og verður 9. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður.

Annað bréfið er frá Guðmundi Árna Stefánssyni, 2. þm. Suðvesturkjördæmis, dagsett 30. ágúst sl. þar sem m.a. segir svo:

„Þar sem ég hef verið skipaður sendiherra í utanríkisþjónustunni frá og með 1. september 2005 afsala ég mér þingmennsku frá sama tíma. Ég þakka alþingismönnum góða samvinnu og samveru þau tólf ár sem ég hef átt sæti á Alþingi Íslendinga.

Guðmundur Árni Stefánsson, 2. þm. Suðvest.“

Þá hefur borist svohljóðandi bréf frá 1. varaþingmanni Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, Ásgeiri Friðgeirssyni, dagsett 30. ágúst sl.:

„Hér með segi ég af mér sem varaþingmaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Ég mun því ekki taka sæti á Alþingi við þingmennskuafsal Guðmundar Árna Stefánssonar, 2. þm. Suðvest.

Virðingarfyllst,

Ásgeir Friðgeirsson,

1. varaþingmaður Samfylkingarinnar

í Suðvesturkjördæmi.“

Við þingmennskuafsal Guðmundar Árna Stefánssonar tekur Valdimar L. Friðriksson því fast sæti á Alþingi og verður 9. þm. Suðvesturkjördæmis.

Þriðja bréfið er frá Davíð Oddssyni, 2. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður, dagsett 27. september sl. og hljóðar svo:

„Þar sem ég hef ákveðið að draga mig út úr stjórnmálastörfum og ganga til annarra verkefna afsala ég mér þingsæti mínu frá og með 1. október nk. Þakka ég gott og ánægjulegt samstarf á vettvangi þingsins við samherja, samstarfsmenn og andstæðinga sem og við starfsfólk Alþingis. Sérstaklega minnist ég með ánægju vináttu og viðskipta við forseta Alþingis sjálfan og fyrirrennara hans á þessum tíma.

Virðingarfyllst,

Davíð Oddsson.“

Við þingmennskuafsal Davíðs Oddssonar tekur Ásta Möller fast sæti á Alþingi og verður 10. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður.

Ég býð hina þrjá nýju þingmenn, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Valdimar L. Friðriksson og Ástu Möller, velkomna til starfa á Alþingi. Jafnframt færi ég fráfarandi þingmönnum, Bryndísi Hlöðversdóttur, Guðmundi Árna Stefánssyni og Davíð Oddssyni, þakkir fyrir störf þeirra á Alþingi.

Enn fremur vil ég nota þetta tækifæri til þess að þakka Davíð Oddssyni, fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra, fyrir langt og farsælt starf hans í þágu þings og þjóðar. Enginn hefur lengur gegnt samfellt forustu í ríkisstjórn á lýðveldistímanum en hann. Hann hefur sett mikinn svip á störf Alþingis og þjóðfélagið allt. Við kveðjum hann og aðra alþingismenn sem hverfa nú af þingi með óskum um velfarnað á nýjum vettvangi. Ég óska þeim og fjölskyldum þeirra allra heilla á komandi árum.