132. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2005.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:24]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Það er mikill kraftur með þjóðinni um þessar mundir. Íslenskt samfélag einkennist af sköpunarkrafti og þeirri gleði sem jafnan fylgir því að sjá hluti komast í verk, mannvirki rísa og drauma breytast í veruleika. Þessi kraftur finnur sér farveg jafnt í viðskiptum og atvinnulífi sem menningu, vísindum, skólastarfi og listum. Alls staðar er verið að fást við nýjungar og unga fólkið aflar sér þekkingar um heim allan til uppbyggingar hér heima fyrir. Við lifum á sannkölluðu framfaraskeiði við hraðbraut mikilla umsvifa og breytinga sem engan hefði dreymt um fyrir tiltölulega fáum árum.

Það er við þessar aðstæður sem þau tímamót verða að Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, ákveður að hverfa af vettvangi stjórnmálanna til annarra starfa. Davíð Oddsson hefur ótvírætt verið fremsti stjórnmálaforingi Íslendinga á glæsilegasta framfaratímabili í sögu þjóðarinnar. Undir hans forustu hefur ríkt festa og öryggi í landsmálum á tímum ótrúlegra breytinga. Þjóðin á honum mikið að þakka.

Frelsi hefur verið leiðarljós þeirra breytinga sem ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafa beitt sér fyrir frá 1991. Miklir kraftar hafa verið leystir úr læðingi með einkavæðingu og auknu frelsi og farið sem vorleysing um þjóðfélagið allt. Birtingarmyndir meira frelsis eru hvarvetna sjáanlegar. En áþreifanlegasti mælikvarðinn er áreiðanlega sú mikla tekjuaukning sem orðið hefur í landinu. Kaupmáttur hins almenna launamanns eftir skatta hefur aukist svo mikið að fólk hefur í dag um 50% meira að raungildi úr að spila en fyrir tíu árum. Opinber þjónusta hefur aukist og batnað til muna á þessum tíma einmitt vegna þess að efnahagsstefnan hefur bætt afkomu ríkissjóðs sem þar með hefur verið betur aflögufær um fjármagn til þjóðþrifamála. Þótt ósamkomulag og hatrammar pólitískar deilur hafi verið um einstök atriði á þessari vegferð hygg ég að enginn vildi nú vera í þeim sporum sem þjóðin stóð í vorið 1991 þegar síðasta vinstri stjórn hrökklaðist frá völdum.

Efnahagslegur stöðugleiki gerir öllum kleift að hugsa til framtíðar. Ísland er öflugra og betra nú en nokkru sinni fyrr og við erum sem þjóð betur búin undir átök sem geta því miður alltaf dunið yfir. Staða ríkissjóðs er geysisterk. Skuldir hafa lækkað verulega og þar með vaxtakostnaðurinn sem þeim fylgir. Einkavæðing Símans gekk eins og að var stefnt og mun verða til þess að ýmis framfaramál sem ríkið þarf að sinna komast fyrr á dagskrá en ella hefði verið. Síminn mun áreiðanlega eflast og dafna í höndum nýrra eigenda en almenningur, sem áður átti fyrirtækið, hefur fengið til ráðstöfunar allt það fjármagn sem þar var bundið, um 67 milljarða kr., sem ríkisstjórnin hefur nú lagt til í sérstöku frumvarpi að verði ráðstafað til nýs þjóðarsjúkrahúss, brýnna samgönguframkvæmda og annarra þjóðfélagsumbóta allt fram til ársins 2012, auk stórfelldrar niðurgreiðslu skulda. Er nokkur í þessum sal búinn að gleyma því hvernig stjórnarandstöðuflokkarnir ýmist lögðust alfarið gegn þessu máli eða gerðu hvað þeir gátu til að gera það tortryggilegt og leggja steina í götu þess? Háttvirtur síðasti ræðumaður, formaður Samfylkingarinnar, lá þar ekki á liði sínu, jafnvel ekki eftir að niðurstaða í málinu lá fyrir nú í sumar.

Við Íslendingar erum í harðri samkeppni við aðrar þjóðir heims um að skapa sem best lífskjör en það er einmitt markmið okkar í stjórnmálum. Atorkan sem einkennir íslenska þjóð er nú orðin að útflutningsvöru og áræði íslenskra athafnamanna vekur athygli langt út fyrir landsteinana. Með aukinni alþjóðavæðingu, bættum samgöngum og nútímatækni er fyrirhafnarlítið að flytja á milli landa og við þurfum því að leggja okkur enn betur fram um að halda í fyrirtækin okkar og starfsfólk þeirra. Samfélagið er opið, alþjóðlegt, sveigjanlegt og umfram allt samkeppnishæft. Útrásin nýja hefur skapað fjölda einstaklinga áður óþekkt tækifæri. Heimurinn er kvikur og síbreytilegur og snerpa og sveigjanleiki skipta sköpum til að ná árangri. En flestum finnst samt sem áður best að eiga vísan samastað á Íslandi vegna þess að hér eru kjöraðstæður til að ala upp börn og hér er skattaumhverfi sem er betra fyrir fólk og fyrirtæki en víðast hvar annars staðar. Öllu þessu er búið að koma í kring á fáum árum.

Þegar ég lét af embætti fjármálaráðherra fyrir viku síðan hafði ég gegnt því embætti í sjö og hálft ár. Af mörgu markverðu, stóru og smáu, sem tókst að koma í verk á þessu tímabili standa eftirfarandi atriði upp úr í mínum huga:

Gríðarlega góð afkoma ríkissjóðs yfir tímabilið í heild, umtalsverðar skattalækkanir, nýtt fæðingarorlofskerfi, einkavæðing ríkisfyrirtækja og niðurgreiðsla skulda og lífeyrisskuldbindinga framtíðarinnar. En allt stefnir þetta að því sama þegar öllu er á botninn hvolft, sem sé því að tryggja betri og öruggari umgerð utan um fólkið í landinu, utan um einstaklingana og fjölskyldurnar.

Nýr fjármálaráðherra lagði fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár fram á Alþingi í gær. Aðhaldsstigið í frumvarpinu er hátt enda umsvif mikil í hagkerfinu. Efnahagsstjórn við þessar aðstæður er úrlausnarefni sem gengið verður til af ábyrgð og festu. Þá skiptir miklu hve búið er að létta miklum byrðum af ríkissjóði á undanförnum árum og þar með skattgreiðendum framtíðarinnar.

Undanfarin sex ár hefur verið greitt markvisst inn á skuldbindingar ríkissjóðs við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Áætlað er að þær greiðslur muni við lok næsta árs nema um 100 milljörðum kr. að meðtöldum vöxtum. Ef ekkert hefði verið að gert er líklegt að LSR hefði komist í þrot innan fárra ára og hefði þá blasað við svipaður vandi og í mörgum nálægum löndum.

Í okkar fámenna þjóðfélagi skiptir velferð sérhvers einstaklings máli fyrir okkur öll. Það er stefna okkar sjálfstæðismanna að ríkisvaldið eigi að vera nógu sterkt til að verja þá veikari en nógu veikt til þess að hinir sterkari fái notið krafta sinna. Þess vegna er stjórnmálabaráttan tvíþætt af okkar hálfu. Annars vegar snýst hún um að huga að hinni efnahagslegu undirstöðu þjóðfélagsins, að sem mest verðmæti verði til og með sem hagkvæmustum hætti en hins vegar að því að tryggja að enginn verði út undan þegar kemur að því að skipta gæðunum. Frjálst markaðskerfi með skýrum leikreglum sem allir verða að hlíta tryggir best hagvöxt og fjárhagslega velgengni þjóðarbúsins en hinum lakast settu verður að búa viðunandi kjör með trygginga- og velferðarkerfinu.

Frú forseti. Margt hefur áunnist á síðustu árum. Margt er þó vissulega enn ógert. Verkefni morgundagsins fela í sér margháttuð tækifæri og áskoranir, bæði á innlendum vettvangi sem utan lands. Frelsi í viðskiptum og öðrum samskiptum þjóða í milli er best til þess fallið að efla okkar eigin hag og bæta jafnframt stöðu þeirra þjóða sem við krappari kjör búa.

Ísland hefur margvíslegum skyldum að gegna í alþjóðlegu samstarfi fyrir utan beina hagsmunavörslu gagnvart öðrum ríkjum. Við förum nú með formennsku í Eystrasaltsráðinu og nýlokið er formennskutímabili okkar í Norðurskautsráðinu. Við erum einnig í fyrirsvari fyrir önnur Norðurlönd og baltnesku löndin innan Alþjóðabankans með sama hætti og innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir fáum árum. Sú reynsla mun koma að góðum notum komi til þess að Ísland fái sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eins og að er stefnt.

Tveir fundir hafa í sumar verið haldnir milli samninganefnda Íslands og Bandaríkjanna um varnarmálin og þriðji fundurinn er áætlaður síðar í október. Þótt viðræðurnar séu efnislega enn á fyrstu stigum má segja að þær séu í jákvæðum farvegi. Íslensk stjórnvöld ganga eins og kunnugt er til þessara viðræðna út frá þeirri forsendu að eðlilegt sé að Ísland taki meiri þátt í kostnaði við rekstur Keflavíkurflugvallar en áður í ljósi þess að borgaraleg umferð um völlinn hefur aukist en hernaðarleg umferð minnkað.

Hæstv. forseti. Við þingsetningu síðastliðinn laugardag minnti séra Valgeir Ástráðsson okkur á hversu mikilvægt það er að verða ekki þjónn fégræðginnar og láta ekki stjórnast af löngun í peningaleg verðmæti ein saman. Hinn kristni boðskapur sem sjálfstæðismenn leggja stefnu sinni til grundvallar byggir ekki síður á þeim auði sem mölur og ryð fá ekki grandað. Þess vegna megum við ekki missa sjónar á því að þótt fjárhagsleg auðlegð þjóðarinnar sé mikilvæg þá á það einnig við um þau verðmæti sem felast í þeim menningararfi og þeim lífsgildum sem gera okkur að Íslendingum og frjálsum einstaklingum. Stjórnmálin snúast um grundvallarviðhorf og um mismunandi afstöðu einstaklinga til þeirra. Ég trúi því að allir alþingismenn hafi á endanum sama markmiðið að leiðarljósi — að gera okkar góða samfélag enn betra. Okkur greinir hins vegar á um hugmyndafræðina að því efni og um leiðirnar að markinu.

Það framfaraskeið sem við upplifum nú er sönnun þess að sú hugmyndafræði sem byggir á frelsi einstaklingsins og minni ríkisafskiptum er margfalt líklegri til að bæta hag almennings en aðrar leiðir sem hafa verið reyndar og boðaðar. Sá góði ásetningur sem býr hjá okkur þingmönnum er því ekki nægilegur. Við verðum að velja réttu leiðina að markinu. Það mun ráða úrslitum um hvort markmiðið næst, hér eftir sem hingað til. — Góðar stundir.