132. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2005.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:05]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Sem þingmanni Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, sem nær frá Siglufirði um Norðurland vestra, Vestfirði, og Vesturland að Hvalfirði, finnst mér nauðsynlegt að rifja upp að þetta landsvæði er til. Þar er ekki að finna þá alsælu sem hæstv. forsætisráðherra var að lýsa áðan. Ég verð líka að færa hæstv. ráðherra þær fréttir, af því að það virðist vanta svolítið upp á jarðsambandið hjá honum, að fyrirtæki eru að fara á hausinn eða illa stödd í Norðvesturkjördæmi, í Norðausturkjördæmi, í Suðurkjördæmi og líka á höfuðborgarsvæðinu. Er það dæmi um stöðugleikann sem ríkisstjórnin gumar af?

Ég spyr: Hvar er eiginlega þessi stöðugleiki? Birtist hann í verðbólgu sem spáð er að fari í 8%? Birtist hann í síhækkandi vöxtum Seðlabankans? Birtist hann í viðskiptahalla sem er í sögulegu hámarki? Birtist hann í stöðugri skuldaaukningu fyrirtækja og heimila eða stöðugt versnandi afkomu útflutningsgreina? Nei, góðir Íslendingar. Forsætisráðherrann lifir í sýndarveruleika.

Frú forseti. Á landsbyggðinni gilda nákvæmlega sömu lögmál og hér á suðvesturhorni landsins. Samsetning atvinnulífsins verður að vera fjölbreytt. Landbúnaður, fiskveiðar og vinnsla eru þar of stór hluti. Þær eru sem fyrr mjög mikilvægar atvinnugreinar en til þeirra þarf sífellt færra fólk. Ein lausnin á vandanum er að koma upp fjölbreyttum störfum sem krefjast menntunar og staðið geta undir eðlilegri fjölgun.

Íbúar landsbyggðarinnar eru duglegir að mennta sig. Konur eru sérstaklega duglegar að nýta sér fjarnám. En unga fólkið fer burt og kemur ekki til baka ef það fær ekki starf við hæfi menntunar sinnar. Þannig myndast óeðlileg og hættuleg skekkja í aldurssamsetningu. Fólk menntar sig í takt við þarfir nútímans og þarf störf við hæfi. En ríkisstjórnin heldur að nútíminn eigi bara við á nokkrum stöðum á landinu og lætur sem önnur svæði séu ekki til. Samfylkingin vill fjölga störfum á landsbyggðinni sem krefjast menntunar. Þar með lögum við aldursskiptingu, hækkum meðaltekjur, sköpum fleiri störf fyrir konur og komum á eðlilegu jafnvægi í byggð landsins.

Hæstv. forsætisráðherra stærði sig af því hér áðan að af OECD-ríkjunum legðu Íslendingar stærstan hluta þjóðartekna sinna til menntunar. Staðreynd málsins er sú að það eru sveitarfélögin sem hala þessa ríku þjóð upp í meðaltalinu, aðeins á grunnskólastiginu erum við fyrir ofan meðaltal í samantekt OECD. Annars staðar erum við alls staðar undir meðaltalinu, t.d. í 14. sæti í framlögum til framhaldsskóla og í 17. sæti þegar kemur að háskólastiginu. Þess vegna munum við samfylkingarmenn leggja til á þessu þingi að stigið verði skref í átt að því að framhaldsskólinn verði færður til sveitarfélaganna, enda verði þau bæði stækkuð og nægilegt fjármagn tryggt til þess. Það mun stórbæta framhaldsskólana alveg eins og þjónusta grunnskólans batnaði verulega þegar hann var fluttur til sveitarfélaganna.

Samfylkingin gerir sér grein fyrir því að menntun er undirstaða framtíðarinnar og leiðin til jafnaðar er menntun. Því ber að leggja sérstaka áherslu á að greiða götu þeirra sem hafa stutta skólagöngu að baki svo að þeir standi jafnfætis öðrum þegnum landsins í lífsbaráttunni. Samfylkingin vill gefa þeim nýtt tækifæri til náms og flytur tillögur þar um. Sá hópur er hlutfallslega mun stærri á landsbyggðinni og uppbygging skólastarfs þeim mun mikilvægari þar.

Skólar hafa mikla þýðingu fyrir einstaklinginn en þeir hafa einnig mikla þýðingu fyrir nærumhverfi sitt. Við sjáum hin jákvæðu áhrif sem háskólarnir á Hólum í Hjaltadal, á Hvanneyri, Bifröst og Akureyri hafa haft. Við vitum að þar er unnið verðmætt uppbyggingarstarf. Framhaldsskólarnir ollu byltingu á landsbyggðinni á sínum tíma en þá var stigið stórt skref til jafnræðis. Nú þarf að stíga annað skref í menntun þjóðarinnar. Það er því eitt af forgangsverkefnum Samfylkingarinnar í menntamálum að stórefla háskólanám á landsbyggðinni.

Frú forseti. Það er öllum landsmönnum í hag að jafnvægi komist á í byggð landsins, einnig þeim sem búa á svæðinu þar sem allt er að springa vegna offjölgunar. En ríkisstjórnin er orðin svo máttlaus og þreytt að hún mun örugglega engu breyta. Í mínu kjördæmi eru meðaltekjur lægstar á landinu, skólaganga íbúanna er styst og brottflutningur íbúanna mestur. Alla þessa þætti getum við lagfært með bættu aðgengi að menntun og störfum við hæfi. Til þess þarf vilja en þann vilja skortir bersýnilega hjá núverandi ríkisstjórn.

Góðir Íslendingar. Ég fullvissa ykkur um að þann vilja skortir ekki hjá Samfylkingunni. — Góðar stundir.