132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Þróun efnahagsmála.

[13:50]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég get upplýst það af því að ég er nýhættur í fjármálaráðuneytinu að það eru reglulegir fundir milli þess ráðuneytis og Seðlabankans og hafa verið í mörg ár um þessi mál og þarf ekki að kvarta undan neinu sambandsleysi þar á milli, enda hefur það samstarf verið mjög gott og gengið prýðilega.

Það er einhver misskilningur sem verið er að reyna að koma hér að að allt sé í klessu í efnahagsmálum. Þannig talar hv. síðasti ræðumaður og gerði hér í gærkvöldi. Staðan í efnahagsmálum er í aðalatriðum mjög góð. Það er viðurkennt af öllum sem hafa kynnt sér þau mál innan lands og utan, aðilum sem hafa um þetta mál fjallað.

Hins vegar er staðan viðkvæm að því leyti til að það eru mikil umsvif í þjóðfélaginu. Það er allnokkur framleiðsluspenna sem lýsir sér m.a. í því að það er lítið atvinnuleysi og sums staðar ekkert og hér er mikið af innfluttu vinnuafli. Áhrif stóriðjuframkvæmdanna eru sennilega minni hvað varðar þenslu í þjóðfélaginu en menn gerðu ráð fyrir áður vegna þess að það hefur verið flutt inn mikið af vinnuafli. Engin ástæða er til að ætla annað en að okkur muni takast að komast út úr þessu ástandi á nokkrum árum með tiltölulega mjúkum og mildum hætti eins og við gerðum síðast þegar svipað ástand var uppi. Menn tala um það sem mjúka lendingu. Ég talaði um það á sínum tíma sem snertilendingu og ég geri mér vonir um að þannig verði það aftur vegna þess að við ætlum okkur að ná efnahagslífinu aftur á flug þrátt fyrir hið neikvæða tal Vinstri grænna og ýmissa annarra gagnvart atvinnuuppbyggingu t.d. í stóriðju.

Það sem er óvænt í þessu ástandi núna er það sem gerst hefur á lánsfjármarkaðnum. Þar urðu óvæntar vendingar í fyrra. Það er gríðarlega mikið framboð á lánsfé, það er það sem hefur sett hlutina í ójafnvægi hvað það varðar og er skýringin á verðbólguhækkununum gagnvart þeim sem hafa verið að kaupa sér húsnæði. Aðrir sem ekki hafa verið í viðskiptum á húsnæðismarkaði (Forseti hringir.) hafa ekki orðið fyrir barðinu á þeim hækkunum.