132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Þróun efnahagsmála.

[13:52]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin virðist í engu ætla að bregðast við þeim vanda sem fram undan er. Verðbólgan er meiri en kjarasamningar við almenna launamenn tóku mið af og við vitum ekki hvar það endar. Þá getum við auðvitað spurt í þessum stuttu umræðum: Hvað gæti ríkisstjórnin gert til þess að lagfæra stöðu almennra launamanna?

Jú, það er ljóst að bæði sjálfstæðismenn og framsóknarmenn sem stjórna landinu gætu m.a. endurskoðað skattastefnu sína. Þeir gætu hætt við að fella niður hátekjuskattinn, þeir gætu hætt við að hafa flata prósentulækkun, 1% á næsta ári og 2% 2007, og sett þessa fjármuni í persónuafsláttinn. Þeir gætu hækkað persónuafsláttinn á næsta ári um 3.000–4.000 kr. á mánuði og um 5.000–6.000 kr. á mánuði á árinu 2007 fyrir sömu fjármuni og þeir ætla í skattaleið sína. Þetta hefði örugglega veruleg áhrif á að skapa hér umhverfi þar sem almennir launamenn teldu hag sínum betur komið en ella.

Að sjálfsögðu er líka óþarfi að fella niður greiðslu til hreyfihamlaðra, þ.e. eldri borgara og öryrkja, svokallaðan bensínstyrk. Þetta eru vanhugsaðar aðgerðir sem ríkisstjórnin boðar og ekki til þess fallnar að búa hér til stöðugt ástand eða að viðhalda betri kjörum fyrir hinn almenna launamann.