132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Þróun efnahagsmála.

[13:54]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Það er svolítið merkilegt að sitja hér í þingsal og verða vitni að algerri afneitun hæstv. ráðherra á því að vandi steðji að í efnahagsmálum og nauðsynlegt sé að ríkisstjórnin bregðist við. Þeir sem eiga í vanda fara oft í afneitum og neita að horfast í augu við raunveruleikann.

Hæstv. forsætisráðherra sagði okkur áðan að allt væri að mestu í lagi. Er það þá eitthvert rugl sem við heyrum í talsmönnum bankanna, í talsmönnum atvinnulífsins, í Seðlabankanum og í forsvarsmönnum launþegasamtaka að það vanti eitthvað á viðbrögð ríkisins til að bregðast við þenslunni eins og hún er núna?

Þetta hlýtur að vekja spurningu um hver það er sem ruglar. Skilaboð og viðbrögð ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans eru afar misjöfn við þeim vanda sem uppi er og helst að sjá á stundum að þessir aðilar, sem verða að taka sameiginlega á, séu að vinna í sína áttina hvor. Eru hæstv. ráðherra og stjórnarþingmenn orðnir svo heilaþvegnir af eigin stöðugleikatali að það sé ekki nokkur möguleiki á að kveikja skilning þeirra á þeirri staðreynd að nú þurfi sameiginlegt átak til að koma stöðugleikanum á að nýju, átak þar sem ríkisstjórnin getur ekki setið hjá að mestu eins og hún virðist ætla að gera miðað við fjárlagafrumvarpið sem lagt hefur verið fram á Alþingi?

Það gengur ekki lengur að svara öllum spurningum um stjórn ríkisfjármála með því að hér ríki stöðugleiki. Reynið að segja þeim sem standa í útflutningi á sjávarfangi, þeim sem hafa lifibrauð sitt af því að taka á móti ferðamönnum, þeim sem sjá verðtryggðar skuldir sínar hækka stöðugt með aukinni verðbólgu, að stöðugleiki ríki. Ætli þeir hinir sömu mundu ekki tala um rugl?

Öfugmælum um stöðugleika verður að linna og raunveruleg verk og vilji til viðbragða að taka við. Það er það eina sem getur stuðlað að ásættanlegri niðurstöðu í þeim vanda sem við glímum nú við. Er ekki kominn tími til að láta af því sem sumir kalla „stöðugleikalygina“?