132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Þróun efnahagsmála.

[13:56]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við höfum hlustað hér á harmakvein hv. stjórnarandstöðu þar sem halda mætti að allt væri að fara á aðra hliðina í efnahagsmálum þjóðarinnar og engar framfarir hefðu orðið síðustu ár. Þetta er afar sérstök sýn á veruleikann.

Mikilvægasta verkefni stjórnmálanna á hverjum tíma er öflug efnahagsstjórn og því verkefni hefur verið sinnt vel. Ég kannast ekki við þær dylgjur sem fram komu hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um að hæstv. forsætisráðherra hafi forðast umræður um efnahagsmál. Núverandi stjórnvöldum hefur tekist að snúa við þeirri þróun sem var hér áður og er staða ríkissjóðs gríðarlega sterk. Skuldir hafa verið greiddar niður, hagvöxtur er meiri en í nágrannalöndum okkar og atvinnuleysi með því lægsta sem þekkist. Ráðstöfunartekjur heimilanna halda áfram að hækka og eignamyndun er mikil.

Vandamálin sem við glímum við eru jákvæð viðfangsefni. Við erum að berjast við sterka krónu, mikinn hagvöxt, þenslu og uppsveiflu. Þetta eru atriði sem einkenna sterkt efnahagslíf og virkt þjóðfélag. Við erum í töluvert betri stöðu en nágrannaþjóðir okkar sem stríða við mikið atvinnuleysi og verðbólgu. Verðbólgan hér, án húsnæðisliða líkt og gerist í öðrum löndum, er hverfandi og er það gott að eitthvað sé farið að hægja á húsnæðismarkaðnum eins og vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sýnir.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram aukið aðhald í ríkisútgjöldum. Við skulum vera meðvituð um að opinber útgjöld eru að mestu fastar stærðir sem ekki verða dregin saman nema með harkalegum niðurskurði og uppsöfnun. Það hljóta að vera leiðirnar sem hv. stjórnarandstaða vill fara, a.m.k. höfum við ekki heyrt neinar tillögur um í hvaða niðurskurð eigi að ráðast. Á t.d. að byrja á menntamálunum eða heilbrigðismálunum? Við bíðum eftir ábyrgð í málflutningi hv. stjórnarandstöðu.